Fasteigna- og leigufélagið WeWork sagði í tilkynningu í gær að félagið ætti í miklum erfiðleikum vegna tekjutaps og minnkandi eiginfjárhlutfalls.
WeWork var eitt sinn metið á 47 milljarða Bandaríkjadala og var talið eitt farsælasta sprotafyrirtæki heims.
Félagið, sem býður upp á skrifstofusetur og sameiginleg vinnusvæði, sagði í tilkynningunni að meiri fjarvinna og efnahagsóvissa væri meðal ástæðna fyrir því fyrirtækið sé að tapa peningum. WeWork skilaði tapi á fyrsta og öðrum ársfjórðungi þessa árs.
Útgjöld fyrirtækisins hafa hækkað með hærri vöxtum á sama tíma og eftirspurn eftir skrifstofurými hefur minnkað.
Eftir misheppnaða tilraun til frumútboðs fór WeWork á markað árið 2021 með krókaleiðum. Hlutabréf fyrirtækisins hafa lækkað um 95% síðan þá. Stendur gengi félagsins í 0,21 Bandaríkjadal þegar þetta er skrifað.
Softbank björgun til einskis
Í tilkynningu gærdagsins segir að búið sé að leggja fram áætlun um hvernig sé hægt að bjarga fyrirtækinu frá greiðslustöðvun og tilvist fyrirtækisins veltur algjörlega á hvernig stjórnendum tekst að framkvæma áætlunina á næstu tólf mánuðum.
WeWork hefur verið að reyna endurfjármagna sig í ár en í mars samþykkti fjárfestingasjóðurinn SoftBank, sem var meðal fyrstu fjárfesta í WeWork, að taka þátt í að endurskipuleggja skuldir fyrirtækisins.
Tók SoftBank á sig 1,6 milljarða dala skuld í skiptum fyrir hluti í fyrirtækinu. Var talið að þetta gæfi fyrirtækinu andrými til að fara í endurskipulagningu.
Viðvörun fyrirtækisins í gær sýnir hins vegar að svo var ekki og hrundi gengi félagsins um 29% í viðskiptum fyrir lokuðum markaði í gær.