Á þriðja ársfjórðungi 2024 var 45,7 milljarða króna afgangur á viðskiptajöfnuði við útlönd. Til samanburðar var viðskiptajöfnuður á sama tímabili í fyrra 86,6 milljarðar króna. Þetta kemur fram í frétt á vef Seðlabankans.

Halli á vöruskiptajöfnuði var 76 milljarðar króna á síðasta ársfjórðungi, samanborið við 84,4 milljarða halla á þriðja ársfjórðungi 2023. Þá var 140,5 milljarða afgangur á þjónustujöfnuði á þriðja ársfjórðungi 2024 samanborið við 155 milljarða afgang á sama tímabili í fyrra.

Frumþáttatekjur skiluðu 6,6 milljarða króna halla og rekstrarframlög 12,2 milljarða halla.

Í lok síðasta ársfjórðungs var hrein staða við útlönd jákvæð um 1.793 milljarða króna eða 40,2% af vergri landsframleiðslu (VLF) og batnaði um 130 milljarða króna eða 2,9% af VLF á fjórðungnum.