Yggdrasill Carbon (YGG) og Svarmi staðfestu nýverið áframhaldandi samstarf við stafrænt mat náttúrulegra verðmæta við undirbúning, framkvæmd og eftirfylgni loftslagsverkefna í íslenskri náttúru. Þetta kemur fram í tilkynningu. Samstarfið felur í sér að YGG nýtir gagnasöfnunar- og greiningarlausn Svarma til þess að bæta gæði mælinga og aðgengi að þeim fyrir hagaðila verkefna, sem vottuð eru samkvæmt íslenskum og alþjóðlegum vottunarstöðlum og leiða af sér viðurkenndar vottaðar kolefniseiningar.

Yggdrasill Carbon vinnur að tengingu kolefnisfjármála (carbon finance) við verkefni sem stuðla að minnkun losunar eða bindingu kolefnis. Það er gert með því að beita alþjóðlega viðurkenndri aðferðafræði við mælingu raun ávinnings einstakra verkefna sem leiðir til þess að út eru gefnar vottaðar kolefniseiningar. Vottun stuðlar að gagnsærri kolefnisjöfnun sem styður við markmið um kolefnishlutleysi og því gagnsæi sem í auknum mæli er kallað eftir.

Svarmi hjálpar fyrirtækjum og opinberum aðilum við mat á náttúrulegum verðmætum innan áhrifasvæða þeirra, meðal annars í tengslum við framkvæmd umhverfismats, undirbúning og eftirfylgni mótvægisaðgerða sem og aðlögun að tæknikröfum EU Taxonomy og TNFD (Taskforce on Nature Related Financial Disclosures).

Hugbúnaðarlausn Svarma auðveldar fyrirtækjum og opinberum aðilum að skilgreina og halda utan um áhrifasvæði sín og ná bættri yfirsýn með gögnum frá gervitunglum, drónum og athugunum á jörðu niðri, að því er kemur fram í tilkynningu.

Tryggvi Stefánsson, stofnandi og tæknistjóri Svarma:

„Samstarf okkar við YGG styður vel við kjarnastefnu Svarma um að auðvelda mat á náttúrulegum verðmætum og breytingu á þeim, þar sem samskipti og samráð við fjölda mismunandi hagaðila skiptir miklu máli. Þetta samstarf er frábært tækifæri til að sýna hvernig hægt er að mæla raunverulega bindingu, meta gæði bindingar út frá sjónarhorni líffræðilegs fjölbreytileika, allt byggt á nákvæmustu gögnum sem fáanleg eru hverju sinni. Með þessu móti er hægt að auka vægi raunmælinga og þar með stuðla að auknu gagnsæi með stafrænum gögnum en jafnframt má nota mælingarnar til að betrumbæta líkanagerð.“

Björgvin Stefán Pétursson, framkvæmdastjóri YGG:

„Gæði upplýsinga um raunáhrif verkefna skipta höfuðmáli í okkar starfsemi og samstarf okkar við Svarma gerir okkur kleift að halda miðlægt utan um öll okkar verkefni allt frá mati fýsileika nýrra landsvæða fyrir áhugasama landeigendur til upplýsingagjafar og áhættustýringu áætlaðra og útgefinna kolefniseininga. Við hlökkum til áframhaldandi samstarfs.“