Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir fjármálaráðherra segir að í sínum huga sé það ekki aðalatriðið hvort um ríkis- eða einkarekstur sé að ræða þegar kemur að heilbrigðiskerfinu, heldur einfaldlega að viðkomandi þjónusta sé veitt öllum óháð fjárhag eða búsetu og að unnið sé með faglega og fjárhagslega hvata sem stuðli að betri þjónustu og hagkvæmari rekstri.

„Að mínu mati er það hollt fyrir kerfið og veitir því gott aðhald að fleiri komi að veitingu heilbrigðisþjónustu en opinberir starfsmenn. Við sjáum enda að aðkoma einkaaðila í heilbrigðisþjónustu hefur gefist afar vel hér á landi,“ segir hún og nefnir auk heilsugæslunnar sjúkraþjálfara, tannlækningar barna, rekstur hjúkrunarheimila og þjónustu sérgreinalækna; allt þjónustu sem ríkið greiði og sjái fólki fyrir en einkaaðilar sjái svo um að veita.

„Ég leyfi mér að efast um að fólkið í landinu sé að kalla eftir að öll þessi þjónusta verði á höndum hins opinbera þótt það greiði vissulega fyrir hana með samningum við þessa aðila. Fólk gerir einfaldlega þá kröfu að þjónustan sé veitt.“

Viðtal við fjármálaráðherra birtist í Frjálsri verslun sem kom út 20. mars. Áskrifendur geta lesið það í heild hér.