Nýleg hækkun FTSE Russell (FTSE) á gæðaflokkun íslenska hlutabréfamarkaðarins úr flokki vaxtarmarkaða (e. frontier) í flokk nýmarkaða (e. emerging) var mikið gleðiefni. Gleðina má rekja til þess að hækkun FTSE flokkunarinnar þýðir auknar fjárfestingar erlendra fjárfesta á hlutabréfamarkaðnum.

Það stafar af því að með hærri flokkun samrýmist fjárfesting á íslenska hlutabréfamarkaðnum fjárfestingarstefnu fleiri erlendra hlutabréfasjóða. Fleiri sjóðir en áður mega því fjárfesta á íslenska markaðnum og vísitölusjóðir sem fylgja nýmarkaðsvísitölum FTSE verða meira að segja að fjárfesta á honum. Auk þess felst í nýju flokkuninni gæðastimpill sem laðar almennt að fjárfesta.

Af hverju er þetta mikilvægt? Í fyrsta lagi er um að ræða aukna erlenda fjárfestingu í íslensku atvinnulífi, en erlenda innflæðið vegna FTSE hækkunarinnar er töluvert. Það hefur verið metið um 50-60 milljarðar króna og er þá bara tekið tillit til ofangreindra vísitölusjóða sem eftir hækkun FTSE verða samkvæmt fjárfestingarstefnu sinni að fjárfesta á íslenska markaðnum. Að öllu meðtöldu er því líklegt að innflæðið verði meira. Þannig blasir það við að aukin aðkoma erlendra fjárfesta, sem koma inn með nýtt fjármagn, gefur fyrirtækjum á hlutabréfamarkaði aukið afl til að knýja nýsköpun og vöxt. Þessi kostur við aukna aðkomu erlendra fjárfesta er líklega sá mikilvægasti.

Skilvirkni markaðarins eykst

En aðkomu erlendu fjárfestanna fylgja aðrir kostir sem eru minna í umræðunni en munu þegar upp er staðið einnig bæta hlutabréfamarkaðinn sem fjármögnunarvettvang, þó með óbeinum hætti sé. Þarna hef ég helst í huga kosti sem auka skilvirkni markaðarins, þ.e. auka líkur á því að verð hlutabréfa á markaðnum endurspegli raunverulegt verðmæti skráðu fyrirtækjanna á hverjum tíma.

Á hlutabréfamarkaði veltu menn vöngum yfir því hverjir myndu vilja selja svo mikið magn til vísitölusjóðanna.

Fyrst ber að nefna að aðkoma fleiri og fjölbreyttari fjárfesta eykur skoðanaskipti á markaðnum. Þegar skoðanir á markaðnum eru ekki einsleitar er síður hætta á hjarðhegðun sem hækkar eða lækkar verð óhóflega, þ.e. framkallar verðbólur eða órökréttar lækkanir.

Í öðru lagi eiga margir erlendu fjárfestanna viðskipti með öðrum hætti en algengt er hjá innlendum fjárfestum. Það tíðkast meðal erlendra fjárfesta á íslenska hlutabréfamarkaðnum að eiga viðskipti með því að leggja fram tilboð í miðlægt viðskiptakerfi Kauphallarinnar. Þetta „dýpkar“ markaðinn, þ.e. fjölgar kaup- og sölutilboðum sem eru öllum aðgengileg, ólíkt því þegar samið er um viðskipti í síma. Þessi viðskiptahegðun erlendu fjárfestanna eykur gæði verðmyndunar á markaðnum með tvennum hætti. Annars vegar eru fyrir vikið meiri upplýsingar opinberar, í formi tilboða, um verðmat fjárfesta á hlutabréfunum. Hins vegar er mikið fyrirliggjandi magn kaup- og sölutilboða til þess fallið að minnka sveiflur í verði, enda þarf þá stærri tilboð en ella til að hreyfa við verðinu.

Í þriðja lagi er aukin aðkoma erlendra fjárfesta, með þekkingu og reynslu af markaðsviðskiptum, beinlínis til þess fallin að auka skilvirkni í verðmyndun á markaðnum. Gott dæmi um þetta eru viðskipti erlendra fjárfesta í aðdraganda hækkunarinnar á FTSE flokkuninni. Eftir að tilkynnt var um hækkunina var nokkuð í umræðunni að hætta væri á að bæði innlent hlutabréfaverð og gengi íslensku krónunnar myndi rjúka upp á síðasta degi fyrir gildistöku hinnar nýju flokkunar.

Ástæðan fyrir þessum væntingum var sú að búist var við miklu innflæði frá vísitölusjóðum á þessum degi, en vísitölusjóðir vilja helst endurskoða eignasöfn sín í lok dags á síðasta degi fyrir endurskoðun viðkomandi vísitalna. Áhyggjur voru ekki síst af því að grunnur gjaldeyrismarkaður réði vart við slíkt innflæði. Á hlutabréfamarkaði veltu menn vöngum yfir því hverjir myndu vilja selja svo mikið magn til vísitölusjóðanna. Hvað ef lífeyrissjóðirnir hefðu t.d. ekki áhuga á því? Myndi hlutabréfaverð ekki rjúka tímabundið upp fyrir öll skynsemismörk? Gætu fjárfestar þá mögulega hagnast duglega á því að selja hlutabréf til vísitölusjóðanna á þessum degi?

Áhyggjurnar reyndust óþarfar

Þrátt fyrir að hið mikla innflæði frá vísitölusjóðunum raungerðist í samræmi við væntingar þá reyndust þessar áhyggjur óþarfar. Hvers vegna? Jú, vegna þess að fjárfestar, sem margir hverjir voru erlendir, áttuðu sig á stöðunni og byrjuðu vikum og mánuðum fyrir hækkun FTSE flokkunarinnar að kaupa krónur og íslensk hlutabréf til þess að selja síðar til vísitölusjóðanna. Þetta gerðu þeir smám saman í litlum skrefum til að hreyfa sem minnst við verði á markaðnum.

Þegar að hækkun flokkunarinnar kom og vísitölusjóðirnir keyptu krónur og hlutabréf í gríð og erg var nægt framboð til sölu á móti, raunar það mikið að hlutabréfaverð lækkaði aðeins. Upplýsingarnar um hið mikla innflæði frá vísitölusjóðunum höfðu þegar endurspeglast í verðinu. Til þess sáu framsýnir fjárfestar og eftir allt saman var ekki eftir miklu að slægjast á deginum fyrir hækkun FTSE flokkunarinnar. Þrátt fyrir að vísitölusjóðirnir keyptu að stórum hluta bréf á einum og sama deginum þá átti nettó innflæðið sér stað yfir miklu lengri tíma.

Bæði gjaldeyrismarkaður og hlutabréfamarkaður réðu því vel við hið mikla innflæði. Engin röskun varð. Það er nákvæmlega svona sem kennslubækurnar segja okkur að skilvirkir markaðir virki, fyrirsjáanlegur atburður hefur áhrif á verð áður en til atburðarins kemur. Skilvirkni íslenska markaðarins reyndist mikil, þvert á það sem sumir veðjuðu á.

Greinin birtist í bók Frjálsrar verslunar 300 stærstu, en áskrifendur geta lesið viðtalið í heild hér.