Marinó Örn Tryggvason var launahæstur þeirra sem gegndu stöðu bankastjóra hér á landi í fyrra samkvæmt Tekjublaði Frjálsrar verslunar sem kom út í vikunni.
Marinó, sem lét af störfum sem forstjóri Kviku banka í ágúst 2023 eftir að hafa gegnt stöðunni í fjögur ár, var með 7,8 milljónir króna í mánaðarlaun í fyrra miðað við greitt útsvar. Til samanburðar var hann með 4,1 milljón á mánuði árið 2022.
Marinó stofnaði á dögunum ráðgjafarfyrirtækið ARMA Advisory ásamt Atla Rafn Björnssyni og tók einnig við stjórnarformennsku Mílu og Gallon síðasta haust.
Marinó Örn Tryggvason var launahæstur þeirra sem gegndu stöðu bankastjóra hér á landi í fyrra samkvæmt Tekjublaði Frjálsrar verslunar sem kom út í vikunni.
Marinó, sem lét af störfum sem forstjóri Kviku banka í ágúst 2023 eftir að hafa gegnt stöðunni í fjögur ár, var með 7,8 milljónir króna í mánaðarlaun í fyrra miðað við greitt útsvar. Til samanburðar var hann með 4,1 milljón á mánuði árið 2022.
Marinó stofnaði á dögunum ráðgjafarfyrirtækið ARMA Advisory ásamt Atla Rafn Björnssyni og tók einnig við stjórnarformennsku Mílu og Gallon síðasta haust.
Birna Einarsdóttir, sem lét einnig af störfum sem bankastjóri Íslandsbanka síðasta sumar, var með tæplega 5,2 milljónir króna í mánaðarlaun miðað við greitt útsvar. Til samanburðar var hún með 3,7 milljónir króna í mánaðarlaun árið 2022.
Birna starfar í dag sem stjórnarformaður Iceland Seafood, Fólk Reykjavík og Verðbréfamiðstöðvar Íslands.
Í launatölum Marinós og Birnu fyrir árið 2023 spila inn í greiðslur í tengslum við starfslok þeirra. Í tilviki Íslandsbanka þá var upplýst um að Birna fengi alls greiddar 56,6 milljónir króna yfir tólf mánaða tímabil í tengslum við starfslokin.
Af núverandi bankastjórum var Benedikt Gíslason, bankastjóri Arion banka, launahæstur í fyrra með mánaðarlaun upp á 5,8 milljónir króna.
Lilja Björk Einarsdóttir, sem hefur starfað sem bankastjóri Landsbankans frá árinu 2017, var með 4,3 milljónir í mánaðarlaun í fyrra.
Jón Guðni Ómarsson, sem gegndi stöðu fjármálastjóra Íslandsbanka í tólf ár áður en hann tók við af Birnu sem bankastjóri, var með tæplega 3,9 milljónir króna í laun á mánuði í fyrra.
Ármann Þorvaldsson, sem tók við sem forstjóri Kviku síðasta sumar, var með 3,9 milljónir í laun á mánuði í fyrra.
Mánaðarlaun bankastjóra árið 2023:
- Marinó Örn Tryggvason, fyrrum forstjóri Kviku – 7,79 milljónir króna.
- Benedikt Gíslason, bankastjóri Arion banka - 5,83 milljónir króna
- Birna Einarsdóttir, fyrrum bankastjóri Íslandsbanka - 5,16 milljónir króna
- Lilja Björk Einarsdóttir, bankastjóri Landsbankans - 4,27 milljónir króna
- Jón Guðni Ómarsson, bankastjóri Íslandsbanka - 3,86 milljónir króna
- Ármann Harri Þorvaldsson, forstjóri Kviku - 3,85 milljónir króna
Hægt er að kaupa Tekjublaðið hér. Að auki er blaðið til sölu í öllum helstu verslunum landsins.
Vegna útgáfu Tekjublaðsins er nauðsynlegt að árétta að um er að ræða útsvarsskyldar tekjur á árinu 2023 og þurfa þær ekki að endurspegla föst laun viðkomandi. Munurinn getur falist í launum fyrir setu í nefndum og önnur aukastörf og hlunnindi vegna kaupréttarsamninga. Miðað er við útsvarsstofn samkvæmt álagningarskrá. Í tölunum eru ekki fjármagnstekjur, t.d. af vöxtum, arði eða sölu hlutabréfa. Hafa verður í huga að inni í tekjum getur verið einskiptisgreiðsla vegna úttektar á séreignasparnaði hjá lífeyrissjóði.