Davíð Helgason, fjárfestir og meðstofnandi Unity Software, var næst launahæsti Íslendingurinn samkvæmt Tekjublaðinu en mánaðarlaun hans námu 35,348 milljónum króna.
Haraldur Ingi Þorleifsson, stofnandi Ueno og fyrrverandi yfirmaður hjá Twitter, var sá eini sem var tekjuhærri en Davíð með um 46 milljónir króna í mánaðartekjur á síðasta ári.
Davíð var lengst af búsettur í Danmörku en flutti nýlega til Íslands og hefur að undanförnu unnið að því að setja á fót fjárfestingafélög um loftslagstengd verkefni á Íslandi.
Davíð starfrækir tvö fjárfestingarfélög á Íslandi, Foobar Iceland ehf. og Foobar Technologies. Langstærsta eign fyrrnefnda félagsins er hlutur Davíðs í Unity en það síðarnefnda fjárfestir í tæknisprotafyrirtækjum.
Hlutur Davíðs metin á 41 milljarð
Í september árið 2020 var félagið skráð í Kauphöll New York og hækkaði gífurlega í virði líkt og mörg önnur tæknifyrirtæki í heimsfaraldrinum.
Eftir skráningu átti Davíð 4% hlut í félaginu. Hann hefur aftur á móti lækkað eignarhlut sinn í félaginu í nokkrum skrefum síðan.
Samkvæmt vefmiðlinum Benzinga hefur Davíð selt hluti í Unity fyrir rúma 32 milljarða íslenskra króna. Hann seldi síðast 12,500 hluti fyrir í byrjun ágúst fyrir 74 milljónir króna.
Davíð á enn 9,107,716 hluti í Unity sem eru 41 milljarðs króna virði á núverandi gengi.
Hægt er að kaupa Tekjublaðið í forsölu hér. Að auki verður blaðið til sölu í öllum helstu verslunum landsins.
Um er að ræða útsvarsskyldar tekjur á árinu 2022 og þurfa þær ekki að endurspegla föst laun viðkomandi. Munurinn getur falist í launum fyrir setu í nefndum og öðrum aukastörfum og hlunnindum vegna kaupréttarsamninga. Í launum sumra kann að vera falinn bónus vegna ársins 2021, sem greiddur var árið 2022. Miðað er við útsvarsstofn samkvæmt álagningarskrá. Í tölunum eru ekki fjármagnstekjur, t.d. af vöxtum, arði eða sölu hlutabréfa. Sleppt er skattfrjálsum dagpeningum, bílastyrkjum og greiðslum í lífeyrissjóði. Hafa verður í huga að inni í tekjunum getur líka verið einskiptisgreiðsla vegna úttektar á séreignarsparnaði hjá lífeyrissjóði.