Næstu tólf mánuðir verða mjög spennandi,“ segir Ívar Kristjánsson, framkvæmdastjóri tölvuleikjafyrirtækisins 1939 Games, en félagið stefnir á töluverðan vöxt næstu misseri. Stærsta verkefnið er að gefa út farsímaútgáfu af fyrsta tölvuleik félagsins, KARDS.
Ívar stofnaði fyrirtækið ásamt bróður sínum, Guðmundi Kristjánssyni, árið 2015. Þeir eru báðir reynsluboltar úr tölvuleikjaheiminum eftir að hafa starfað hjá CCP í vel á annan áratug, en Ívar er einn stofnenda og fyrrverandi framkvæmdastjóri CCP.
1939 Games gaf KARDS formlega út á síðasta ári fyrir PC-tölvur á leikjaveitunni Steam. „Viðtökurnar hafa verið alveg frábærar,“ segir Ívar. Yfir 600 þúsund spilarar hafa sótt leikinn og mánaðarlegir notendur í dag eru um 65 þúsund.
Tekjurnar af leiknum í fyrra voru um 250 milljónir króna og segir Ívar að félagið hafi skilað hagnaði á síðasta ári, sem má segja að hafi verið fyrsta tekjuár félagsins.
Fyrirtækið vinnur að því að opna fyrir KARDS beint af heimasíðu 1939 Games ásamt því að bjóða hann á leikjaveitunni Epic Games Store. „Þá erum við og sækja á Suður-Kóreumarkað með þarlendum útgefanda,“ segir Ívar. Með því sé verið að skjóta enn styrkari stoðum undir félagið og tölvuleikinn fyrir stóra stökkið snemma á næsta ári, en þá kemur farsímaútgáfa af KARDS út.
„Þar eru tækifæri til fimm- eða tíföldunar miðað við möguleikana í PC-tölvum,“ segir Ívar, enda farsímaleikjamarkaðurinn mun stærri en markaðurinn fyrir PC-leiki eða leikjatölvur.
Þá hefur 1939 Games opnað skrifstofu í Helsinki í Finnlandi. „Þar stefnum við á að ráða í þær stöður þar sem erfitt er að ráða inn á Íslandi,“ segir Ívar, en félagið stefnir að því að fjölga starfsmönnum fyrirtækisins úr 14 í 20-24 á þessu ári.
Nánar er fjallað um 1939 Games og fleiri spennandi íslensk sprotafyrirtæki í nýjasta tölublaði Frjálsrar verslunar sem finna má í verslunum Pennans Eymundsson. Hægt er að gerast áskrifandi hér eða kaupa blaðið hér .