Hlutfall kvenna af nýráðnum framkvæmdastjórum hér á landi á árabilinu 2010-2022 er að meðaltali 21,9%. Á tímabilinu hefur hlutfall kvenna sem taka við stöðu framkvæmdastjóra af öðrum konum að meðaltali verið 45%, en hlutfall kvenna sem taka við slíkum stöðum af körlum að meðaltali verið 16,8%, samkvæmt greiningu sem Creditinfo gerði fyrir Frjálsa verslun.
Sveiflur í þróun hlutfalls þeirra kvenna sem taka við stöðunum af körlum og hlutfalli kvenna af nýráðnum framkvæmdastjórum hefur haldist í hendur á tímabilinu. Hins vegar hefur hlutfall þeirra kvenna sem taka við framkvæmdastjórastöðum af öðrum konum aukist jafnt og þétt og var til að mynda 56,7% í fyrra og hafði þá hækkað samfellt frá árinu 2018.
Þegar litið er á þróun hlutfalls kvenna af nýráðnum framkvæmdastjórum eftir atvinnugreinum er hlutfallið til að mynda mjög lágt í flokknum landbúnaður, skógrækt og sjávarútvegur. Þar er það 0% á árinu og var einungis 6,3% í fyrra en hefur að meðaltali verið 15% á árabilinu 2010-2022. Til samanburðar er hlutfallið að meðaltali 26,5% í ferðaþjónustu og afþreyingu, 19,3% í fjármála-, vátrygginga og fasteignastarfsemi og 21% í smá- og heildsölu, 17,6% í framleiðslu og 22,7% í sérfræðivinnu.
Enn ríki valdaójafnvægi
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir Ísland hafa verið í efsta sæti í tólf ár yfir þau lönd sem standi sig best í kynjajafnréttismálum. Enn ríki þó valdaójafnvægi í samfélaginu sem birtist meðal annars í tölum yfir stjórnendur á vinnumarkaði, sérstaklega í einkageiranum. „Þetta hefur gengið hraðar hjá hinu opinbera sem sést til að mynda í hópum ráðuneytisstjóra og forstöðumanna. Það ætti að vera metnaðarmál atvinnulífsins að bæta úr þessu,“ segir Katrín.
Hún nefnir að miklar breytingar hafi orðið í þátttöku kvenna á vinnumarkaði og að konur séu einnig komnar í meirihluta þeirra sem ljúki háskólanámi hér á landi. „Við sjáum samt ennþá mikið ójafnvægi á ýmsum öðrum sviðum. Ég er þeirrar skoðunar að þessi mál snúist annars vegar um kynbundið og kynferðislegt ofbeldi, sem er í raun og veru bæði orsök og afleiðing þessa misréttis sem við höfum lengi búið við, og hins vegar um þessar einstöku atvinnugreinar þar sem hlutur kvenna er ekki eins og við myndum vilja.“ Þá er hún þeirrar skoðunar að kynskiptur vinnumarkaður hafi áhrif á þróun hlutfalls kvenna í framkvæmdastjórastöðum.
Fréttin er hluti af lengri umfjöllun í nýjasta tölublaði Frjálsrar verslunar.