Sovétmenn höfðu skyndilega áhuga á viðskiptum við Íslendinga árið 1946 og 1947. Ólafur Thors forsætisráðherra á að hafa sagt að þessu tilefni: „Nú, þeir ætla ekki að láta Kanana fá okkur ókeypis, Rússarnir.” Engin viðskipti voru milli ríkjanna árin á eftir en árið 1953 var viðskiptasamningur gerður sem gilti að grunni til fram að falli Sovétríkjanna árið 1991.

Björn Bjarnason var blaðamaður á Morgunblaðinu árið 1983 þegar þrjátíu ára afmælis viðskiptasamningsins við Sovétmenn var minnst. Björn taldi ekki vafa á því að grundvöllur viðskiptanna milli Íslands og Sovétríkjanna væri ekki aðeins efnahagslegur, heldur einnig pólitískur.

Björn rifjaði upp frásögn af þingi sovéska kommúnistaflokksins í Moskvu árið 1920.

„Í því samhengi má rifja upp, að frægi bandaríski blaðamaðurinn John Reed sagði kommúnistum frá Íslandi frá því í Moskvu, að á þingi sovéska kommúnistaflokksins 1920 hefði Lenín vakið máls á þýðingu Íslands ef til ófriðar kæmi milli Bandaríkjanna og Evrópu. Og hafði Lenín þá talað um hernaðarlegt gildi Íslands í framtíðarstyrjöld, sérstaklega með tilliti til kafbáta- og lofthernaðar.”

Í fréttaskýringunni fjallar Björn um pólitískar ástæður viðskipta Sovétríkjanna við Íslendinga:

„Samningurinn 1953 var gerður í öðru andrúmslofti en 1946. Hins vegar er ljóst að Sovétmenn sáu sér pólitískan hag af því að ná efnahagsítökum á Íslandi þegar hinn mikilvægi fiskmarkaður í Bretlandi var lokaður og sölutregða í Vestur-Evrópu og í Bandaríkjunum. Vafalaust hefur Sovétstjórnin talið að með viðskiptunum gæti hún knúið Íslendinga til að taka meira tillit en áður til sjónarmiða sinna. Þetta gat jafnvel haft hernaðarlegan ávinning í för með sér fyrir Sovétríkin. Bandaríkjamenn töldu á þessum tíma nauðsynlegt að auka herstyrk sinn á Íslandi og stóðu í samningum um það við ríkisstjórnina.”

Fréttin er hluti af lengri umfjöllun í nýjasta tímariti Frjálsrar verslunar sem kom út á fimmtudaginn. Hægt er að gerast áskrifandi hér.