Hjónin Ingibjörg Jónsdóttir og Friðrik Steinn Kristjánsson eiga saman fjárfestingafélagið Silfurberg sem hefur fyrst og fremst verið virkt í lyfjaiðnaði en hefur einnig gert sig gildandi í listaheiminum.

Friðrik er lyfjafræðingur með áratuga reynslu í lyfjaiðnaðinum, en Ingibjörg hefur lært myndlist og tengd fræði við fjóra skóla á Íslandi, í Kaupmannahöfn og í Mexíkó.

Friðrik stofnaði lyfjafyrirtækið Omega Farma árið 1990 sem var keypt af Delta – fyrirrennara Actavis – árið 2002. Tveimur árum seinna stofnaði hann Invent Farma sem var svo keypt af erlendu lyfjafyrirtæki árið 2016, en í þeim viðskiptum eignaðist Silfurberg lítinn hlut í þýsku lyfjafyrirtæki, Neuraxpharm Arzneimittel, sem var svo selt árið 2020 með milljarðahagnaði fyrir fjárfestingafélag hjónanna.

Silfurberg er nú aðaleigandi Lyfjavers með yfir 90% hlut, og Friðrik gegnir þar stjórnarformennsku. Þá stofnaði Silfurberg nýlega sjóðinn Berg Energy Ventures, sem fjárfestir í fyrirtækjum sem vinna að lausnum gegn loftlagsvánni og er stýrt af dóttur hjónanna.

Hjónin stofnuðu listagalleríið Berg Contemporary árið 2016 og þar starfar Ingibjörg enn sem framkvæmdastjóri, en hún stýrir einnig Listasjóð Silfurbergs.

Áskrifendur geta lesið um 50 ríkustu Íslendingana í nýjasta tölublaði Frjálsrar verslunar og þá er hægt að kaupa tölublaðið hér.