Að sögn Friðriks Sophussonar, sem gegndi embætti fjármálaráðherra bróðurpart 10. áratugarins og leiddi í því hlutverki einkavæðingarátak ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar, studdi starfsfólk ráðuneytisins stefnuna upp til hópa.

„Fjármálaráðuneytið var mjög öflugt á þessum tíma og þar ríkti fullur og sameiginlegur skilningur á því að um nauðsynlegar umbætur væri að ræða ef takast ætti að ná tökum á ríkisfjármálunum. Þar lögðust því allir á eitt og tókust á við verkefnið af heilum hug. Allt skipti þetta miklu máli um hversu vel til tókst.“

Margt spilaði með þeim Friðriki og félögum í stjórnarráðinu, en innleiðing stefnunnar var þó ekki án hindrana.

„Ríkisstofnanir á Íslandi voru tiltölulega margar, og sumar hverjar svo smáar að þær réðu illa við svo stórtækar umbætur. Það kom til dæmis skýrt í ljós þegar við gáfum forstjórunum meira frelsi í launamálum. Sumir þeirra bara réðu ekki við það.“

Friðrik segir forstöðumenn ríkisstofnana þó heilt yfir hafa haft góðan skilning á stöðunni, og því verki sem fyrir höndum væri, enda hafi verið staðið fyrir stöðugum fræðslufundum með þeim.

Nánar er rætt við Friðrik um einkavæðinguna í nýjasta tölublaði Frjálsrar verslunar. Áskrifendur geta lesið viðtalið í heild hér.