Nói Síríus var sem fyrr stærsta sælgætisgerðarfélag landsins á síðasta ári, með tæplega 4,2 milljarða veltu og jókst veltan um 427 milljónir króna frá fyrra ári. Velta Nóa var tæplega þrefalt meiri en hjá næst stærstu sælgætisgerð landsins, Góu-Lindu sælgætisgerð ehf.

Góa velti rúmlega 1,4 milljörðum króna í fyrra og jókst veltan um 90 milljónir króna á milli ára. Freyja var þriðja stærsta sælgætisgerðin í fyrra með veltu upp á tæplega 1,3 milljarða króna. Nói Síríus, Góa og Freyja eru lang stærstu sælgætisgerðarfélög landsins, en velta þessara þriggja félaga nam samtals 6,9 milljörðum króna á síðasta ári, eða sem nemur rúmlega 85% af samanlagðri veltu tíu stærstu sælgætisgerðarfélaga landsins.

Á eftir risunum þremur koma Omnom og Kólus næst, með 576 milljón króna veltu og 546 milljón króna veltu. Omnom tapaði 20 milljónum króna í fyrra eftir að hafa hagnast samtals um 64 milljónir á árunum 2020-2021.

Kólus, einnig þekkt undir Sambó, hefur hagnast ágætlega á síðustu árum, síðast um 47 milljónir króna á árinu 2022. Af fimm stóru sælgætisgerðunum var Kólus jafnframt með besta hagnaðarhlutfallið, eða 8,5%. Þar á eftir kemur Góa með 6,8% hagnaðarhlutfall.

Nánar er fjallað um málið í bókinni 500 stærstu sem kom út í gær, 6. desember. Hægt er að festa kaup á bókinni hér.