Nói Síríus var sem fyrr stærsta sælgætisgerðarfélag landsins á síðasta ári, með tæplega fimm milljarða króna veltu og jókst veltan um 21% milli ára.

Norski matvælarisinn Orkla eignaðist Nóa Siríus að fullu árið 2020 með kaupum á 80% eignarhlut en Nói-Síríus var metið á ríflega 3 milljarða króna í viðskiptunum. Orkla kom fyrst inn í hluthafahóp Nóa-Siríusar árið 2019 þegar það keypti 20% hlut á rúman hálfan milljarð.

Sigríður Hrefna Hrafnkelsdóttir, forstjóri Nóa Síríus, segir áhugavert að sjá breytingar á neysluhegðun eftir því sem samsetning íbúa breytist.

„Við erum komin með háa hlutdeild af einstaklingum í samfélaginu sem eru ekki fæddir hér og uppaldir. Í samræmi við það sjáum við að neysla á dökku súkkulaði, sem við höfum almennt flokkað sem bökunarvöru, hefur aukist umtalsvert.

Þetta er skemmtileg þróun og gaman að fá fólk í samfélagið okkar með dekkri smekk en við Íslendingar sem erum mest fyrir rjómasúkkulaðið.“

Stærsta áskorun félagsins um þessar mundir segir hún vera miklar hækkanir á heimsmarkaðsverði á kakói.

„Þessar hækkanir eiga sér ekki sögulegar hliðstæður, og það ríkir óvissa um uppskeruna. Nú reynir á íslensku bjartsýnina að kakóverð fari að lækka almennilega, líkt og stýrivextirnir.“

Velta Nóa Síríus var tæplega þrefalt meiri en hjá næststærstu sælgætisgerð landsins, Góu-Lindu sælgætisgerð ehf. Góa velti rúmlega 1,7 milljörðum króna í fyrra og jókst veltan um 270 milljónir króna á milli ára. Freyja var þriðja stærsta sælgætisgerðin í fyrra með veltu upp á tæplega 1,4 milljarða króna.

Nánar er fjallað um sælgætisgerðir í bók Frjálsrar verslunar, 500 stærstu, sem var að koma út. Hægt er að festa kaup á bókinni hér.