Solid Clouds hefur unnið að þróun tölvuleiksins Starborne: Sovereign space frá stofnun félagsins 2013. Frumútgáfa leiksins fór í loftið árið 2018 (svokölluð alpha útgáfa), en umfangsmeiri prufuútgáfa (beta) var gefin út á síðasta ári og spilarar skipta hundruðum þúsunda.
Félagið hefur tekið inn á annan milljarð í fjármögnun að meðtöldum styrkjum og endurgreiðslum þróunarkostnaðar og verður skráð á First North hliðarmarkaðinn í kjölfar frumútboðs sem hefst á morgun og mun standa fram á miðvikudag, en hluthafar skipta þegar hundruðum. Í dag starfa þar 17 manns, en gert er ráð fyrir að stöðugildin verði komin í 25 fyrir árslok.
Hugmyndin að Starborne byggir á mikilli reynslu og áhuga stofnendanna – áðurnefnds Stefáns Gunnarssonar auk nafna hans Björnssonar – á borðspilum, en þeim fyrrnefnda hafði lengi þótt vöntun á tiltekinni gerð leikja á markaðnum. Á endanum gafst hann upp á að bíða og lærði tölvunarfræði til að geta hannað leikinn sjálfur.
Vinna við verkefni sem „nýtir ákveðinn grunn úr fyrri vöru“ hófst um síðustu áramót. „Við sáum ákveðið tækifæri til að breyta til, og erum að vinna í nýrri vöru í tengslum við það,“ segir Stefán Gunnarsson, annar stofnenda, en á fimmtudag var tilkynnt um væntanlegan nýjan leik frá fyrirtækinu sem gerist í sama heimi og sá fyrsti og mun heita Starborne: Frontiers.
Frontiers er sagður aðgengilegri en Sovereign space og verður spilanlegur bæði á PC tölvum og snjallsímum. Í Frontiers fara spilarar í hlutverk foringja yfir geimflota sem safnar sér geimskipum og berst við óvini úr ýmsum fylkingum.
Mér finnst mjög spennandi að geta farið að segja dýpri sögur í leikjunum okkar,“ er haft eftir Stefáni í tilkynningu vegna leiksins. „Við erum búin að skapa stóran heim og tæknigrunn sem gerir okkur kleift að skapa íburðarmeiri sögur og meiri hlutverkaleik, og það er mjög gefandi.“
Nánar er fjallað um málið í tímariti Frjálsrar verslunar, sem var að koma út og færst í verslun Pennans Eymundsson. Hægt er að gerast áskrifandi hér eða kaupa blaðið hér .