Leikjafyrirtækið Klang Games var metið á um 15 milljarða króna miðað við síðustu fjármögnunarumferð félagsins í ágúst árið 2019, þegar það sótti um 2,7 milljarða króna frá fjárfestum til að styðja við vöxt félagsins. Félagið var því á þeim tímapunkti talið verðmætara en nokkur félög í íslensku kauphöllinni, einungis sex árum eftir stofnun fyrirtækisins árið 2013.
Stofnendur Klang eru Ívar Emilsson, Oddur Snær Magnússon og Guðmundur Hallgrímsson, sem jafnan er kallaður Mundi Vondi, en sá síðastnefndi er framkvæmdastjóri félagsins. Ívar og Oddur störfuðu áður hjá CCP.
Meðal hluthafa Klang Games eru einu Íslendingarnir á Forbes auðmannalistanum, Björgólfur Thor Björgólfsson, í gegnum fjárfestingafélag sitt Novator, og Davíð Helgason, stofnandi Unity. Meðal annarra hluthafa er danski leikfangarisinn LEGO í gegnum fjárfestingafélag sitt, LEGO Ventures.
Höfuðstöðvar félagsins eru í Berlín, en stofnendurnir töldu sig hafa betra aðgengi að starfsfólki þar en í fámenninu á Íslandi þar sem mörg leikjafyrirtæki eru um hæfileikaríka starfsmenn. Auk þess voru gjaldeyrishöftin enn við lýði þegar félagið var stofnað. Klang gaf út sinn fyrsta tölvuleik árið 2015, ReRunners.
Stóra verkefnið frá árinu 2016 hefur hins vegar verið þróun fjölspilunarleiksins Seed, sem hefur að undanförnu verið í lokuðum Alpha prófunum. Verkefnið þykir afar metnaðarfullt enda hefur leikurinn verið í þróun undanfarin fimm ár.
Seed þykir óvenjulegur fyrir þær sakir að framvinda leiksins og persóna í honum heldur áfram allan sólarhringinn óháð því hvort notendur eru að spila leikinn eða ekki. Í Seed taka spilarar þátt í að skapa nýtt samfélag á fjarlægri plánetu, og hefur leiknum bæði verið líkt við tölvuleikina Sims og EVE Online, þekktasta afkvæmi CCP. Notendur munu sjálfir móta þau þjóðfélög sem skapast innan leiksins og koma sér saman um leikreglurnar – eða ekki láta vopnin tala.
Það vakti nokkra athygli þegar Klang fékk til liðs við sig Lawrence Lessig, lagaprófessor úr Harvard og frambjóðenda í forvali Demókrata til forseta Bandaríkjanna árið 2016.
Nánar er fjallað um Klang Games og fleiri spennandi íslensk sprotafyrirtæki í nýjasta tölublaði Frjálsrar verslunar sem finna má í verslunum Pennans Eymundsson. Hægt er að gerast áskrifandi hér eða kaupa blaðið hér .