Haldið var upp á fimmtíu ára afmæli álframleiðslu hér á landi fyrr á þessu ári, en álverið í Straumsvík hóf starfsemi árið 1969, og markaði þar með upphaf íslenskrar stóriðju. „Það má segja að við höfum með þessum hætti verið að flytja út hagkvæma íslenska orku í formi orkufrekrar útflutningsvöru í hálfa öld,“ segir Jóhannes Nordal, sem var fyrsti stjórnarformaður Landsvirkjunanar, sem stofnuð var árið 1965. Jóhannes gengdi starfi stjórnarformanns í þrjá áratugi, lengst af samhliða starfi seðlabankastjóra.
Landsvirkjun var stofnuð til að hrinda í framkvæmd byggingu Búrfellsvirkjunar sem sér álverinu fyrir raforku. Hann varð formaður stóriðjunefndar árið 1961 og leiddi viðræður við Alusuisse um byggingu Búrfellsvirkjunar og álversins í Straumsvík.
„Markmiðið var að gera okkur kleift að ráðast í hagkvæma stórvirkjun með því að selja verulega hluta orkunnar til orkufrekrar stóriðju. Þannig var annars vegar komið á fót nýjum útflutningsatvinnuvegi, en hins vegar tryggð hagskvæm raforka fyrir innlenda markaðinn. Ég held að það sé varla hægt að segja annað en að stefnan hafi borið góðan ávöxt,“ segir Jóhannes um uppbyggingu Landsvirkjunar síðustu hálfa öldina.
„Því fyrr sem að við gátum byggt svona hagkvæma virkjun því betra. Vatnsaflsvirkjanir eru sérstakar að því leyti að með góðu viðhaldi hafa þær hafa nánast takmarkalausa lífdaga. Það er nú rætt um að setja upp sérstakan þjóðarsjóð fyrst og fremst með verðmætum sem Landsvirkjun býr nú yfir. Þar er Búrfellsvirkjun einn dýrmætasti hlutinn.“
Undirbúningur að byggingu Búrfellsvirkjunar stóð mest allan sjöunda áratuginn. Viðræður við Alusuisse hófust árið 1961 og lauk ekki fyrr en 1966. Jóhannes bendir að eiginlegar viðræður hafi ekki tekið svo langan tíma. „Það þurfti mikinn undirbúningstíma til að gera traustar áætlanir og rannsóknir. Þetta voru langir og flóknir samningar. Báðir aðilar þurftu að vera vissir um að allt gæti gengið upp og gætu treyst hvor öðrum. Síðast en ekki síst var það grundvallaratriði að Alþjóðabankinn lagði mat á þjóðhagslegt gildi framkvæmdanna og samþykkti að veita lán fyrir verulegum hluta byggingarkostnaðar Búrfellsvirkjunar.“
Á þessum tíma var að verða skortur á raforku fyrir Íslendinga þar sem búið var að fullnýta Sogið. „Til þess að geta ráðist í verulega hagkvæmar virkjanir þurfti að byggja stóra virkjun í einhverri af jökulánum.“ Eftirspurn Íslendinga jókst ekki nægjanlega hratt til að standa undir slíkri stórvirkjun. „Þannig að með sölu á orku til nýrrar stóriðju var bæði hægt að koma á nýjum útflutningsiðnaði og tryggja ódýra orku fyrir innlendan markað um langa framtíð.“
„Take it or leave it“
Samningurinn við Alusuisse var harðlega gagnrýndur á sínum tíma. Margir kunnu illa við að heimila ætti erlendu fyrirtæki slík ítök í íslensku atvinnulífi. Þá hefði raforkan verið seld á allt of lágu verði. „Það var talað um að þetta fyrirtæki væri ekki í íslenskri lögsögu. Sú umræða hjaðnaði nú fljótt.“
Varðandi raforkuverðið segir Jóhannes að þar hafi kostirnir í raun ekki verið margir. „Það má segja að þarna hafi verið spurning um „take it or leave it“.
Annað hvort þurftum við að vera tilbúin að selja rafvorkuna á samkeppnishæfu verði miðað við það sem þessi fyrirtæki áttu kost á annars staðar, t.d. í Kanada, eða ekkert yrði úr framkvæmdum.“ Íslendingar hefðu ekki burði til að fjármagna slíka virkjun og stóriðju.
„Það var nokkuð ljóst að það væri í raun enginn annar kostur ef við ætluðum að nýta okkur þá miklu vatnsorku sem við höfðum og byggja upp útflutningsiðnað samhliða. Við höfðum ekkert bolmagn til þess að koma upp slíkum iðnaði sjálfir. Okkur skorti bæði þekkingu og fjármagn til þess.“
Nánar er fjallað um málið í 80 ára afmælisriti Frjálsrar verslunar. Finna má blaðið á helstu sölustöðum. Hægt er að kaupa blaðið hér eða gerast áskrifandi hér .