Á árunum 2020 og 2021 fóru flest öll vestræn ríki í miklar örvunaraðgerðir og seðlabankar viðkomandi ríkja í vaxtalækkanir skuldabréfakaup, til að halda landsframleiðslunni gangandi. Þegar tók að líða á árið 2021 fóru áhrif þessara örvunaraðgerða að líta dagsins ljós í formi vaxandi verðbólgu sem hélt áfram fram á árið 2022. Þar fyrir utan hefur framleiðsla í heiminum ekki komist á fyrri stað, sem hefur keyrt upp verðbólguna enn frekar.
Ársverðbólga í Bandaríkjunum mældist 7,7% í október á þessu ári, en hún fór hæst upp í 9,1% í júní og hafði ekki verið hærri í fjóra áratugi. Til samanburðar hefur Bandaríski seðlabankinn brugðist við verðbólgunni með hröðum vaxtahækkunum, en bankinn hefur hækkað vexti sex vaxtaákvörðunarfundi í röð. Á þessu ári hafa stýrivextir í Bandaríkjunum farið úr 0-0,25% upp í 3,75- 4,0%.
Sögulega há verðbólga, miklar vaxtahækkanir á skömmum tíma og stríð Rússa í Úkraínu hefur allt leitt til þess að kólnað hefur á hagkerfinu vestanhafs. Þróunina má meðal annars sjá á tveimur af þremur stærstu hlutabréfavísitölum vestanhafs, S&P 500 og Nasdaq Composite. Þá telja ýmsir sérfræðingar að lækkanir á hlutabréfamörkuðum muni halda áfram á þessu ári og því næsta í takt við mögulegan samdrátt í hagkerfinu.
S&P 500 vísitalan inniheldur 500 stærstu skráðu fyrirtækin í Bandaríkjunum. Þegar þetta er skrifað hefur vísitalan lækkað um 16% frá áramótum. Þegar horft er yfir aðeins lengra tímabil má sjá að vísitalan hefur hækkað um rúm 7% frá upphafi árs 2021. Vísitalan hækkaði um tæp 27% á árinu 2021, en sú hækkun hefur að mestu gengið til baka á árinu 2022.
Nasdaq Composite úrvalsvísitalan inniheldur meira en 3.700 skráð fyrirtæki í Bandaríkjunum. Tæknigeirinn stendur fyrir rúmlega helmingi vísitölunnar, sem er talsvert meira vægi en í öðrum vísitölum. Vísitalan hefur lækkað nokkuð meira en S&P 500 það sem af er ári, eða um 29% þegar þetta er skrifað. Tæknifyrirtækin vestanhafs hafa sveiflast mun meira í verði en önnur félög að jafnaði.
Evrópa frýs
Verðbólga í Bretlandi mældist 11,1% í október og hefur ekki mælst hærri í fjóra áratugi. Seðlabanki Bretlands hefur brugðist við hækkandi verðbólgu með umfangsmiklum vaxtahækkunum síðastliðið ár, en vextirnir hafa farið úr 0,1% í lok árs 2021 upp í 3,0%. Aðalhagfræðingur bankans hefur sagt opinberlega að vextirnir muni hækka meira.
FTSE 100 úrvalsvísitalan, sem inniheldur 100 stærstu skráðu félögin í Kauphöllinni í London, hefur hækkað heilt yfir um 16% frá upphafi árs 2021, þegar þetta er skrifað. Markaðir í Bretlandi hafa því staðið storminn af sér aðeins betur en markaðir í Bandaríkjunum.
Verðbólga í Evrópu hefur rokið upp að undanförnu eins og annars staðar, en hún mældist 10,7% í október og hefur aldrei mælst meiri. Þá hefur orkuverð í álfunni hækkað um rúm 40% á milli ára. Seðlabanki Evrópu hefur brugðist við með því að hækka stýrivexti úr núll upp í 1,5% á skömmum tíma. Það hefur hægt á vexti hagkerfisins.
STOXX Europe 600 úrvalsvísitalan inniheldur skráð félög í Evrópu, þar á meðal í Bretlandi. Vísitalan hefur hækkað um 7% frá upphafi árs 2021. Hún fylgir sömu þróun og flestar aðrar vísitölur, hækkaði nokkuð á árinu 2021 en hefur gengið að mestu til baka á þessu ári.
Silíkondalurinn nötrar
Tæknifyrirtækin vestanhafs hafa sveiflast mun meira í verði en önnur félög að jafnaði.
Gengi bréfa Meta hækkaði nokkuð á árinu 2021 og fór úr 273 dölum í byrjun árs og hæst upp í 379 dali sama ár. Síðan þá hefur gengið hríðfallið, og hefur lækkað um 70% frá hæsta gengi í september 2021 þegar þetta er skrifað. Gengi bréfa Twitter hefur sveiflast mikið frá upphafi árs 2021. Kaup Elon Musk á 9,1% hlut í Twitter gengu formlega í gegn 27. október á þessu ári. Kaupverðið nam 44 milljörðum dala, en viðræðurnar hófust í aprílmánuði sama ár. Gengi rafbílaframleiðandans Tesla hefur sveiflast mikið að undanförnu. Gengið rauk upp í faraldrinum og var hæst komið upp í 407 dali í fyrra, og hafði þá hækkað um meira en 70% frá áramótum. Síðan þá hefur gengið lækkað mikið og stendur nú í 183 dölum þegar þetta er skrifað.
Þá hefur hlutabréfaverð Amazon lækkað um meira en helming frá sínu hæsta gildi árið 2021. Gengi bréfa Microsoft, Alphabet og Apple, hafa hins vegar verið stöðugari á sama tímabili. Apple hefur hækkað um 13% frá byrjun árs 2021, á meðan gengi Microsoft og Alphabet hefur hækkað um 12% frá upphafi árs 2021.
Til að lesa meira
Hægt að er kaupa áskrift að Viðskiptablaðinu, Fiskifréttum og Frjálsri verslun hér.
Verð frá 2.749 kr. á mánuði