Ríkissjóður seldi 57,5% hlut í Íslandsbanka í tveimur lotum fyrir 108 milljarða króna á árunum 2021 og 2022. Eftirstandandi 42,5% eignarhlutur ríkisins er hátt í hundrað milljarðar króna að markaðsvirði.

Ríkið á 98,2% hlut í Landsbankanum sem ætla má að sé um 300 milljarða króna virði, sé miðað við svipað V/I hlutfall og hjá Íslandsbanka. Ætla má að eignarhlutur ríkisins í bönkunum tveimur sé í kringum 400 milljarðar króna að verðmæti.

Í eigandastefnu ríkisins fyrir fjármálafyrirtæki sem tók gildi árið 2017 segir að litið hafi verið á eignarhald ríkisins í fjármálafyrirtækjum sem tímabundið fyrirkomulag eftir fjármálahrunið 2008 þótt ástæða gæti verið að halda einhverjum þeirra áfram í eigu ríkisins. Stefnt yrði að því að ríkið myndi ekki eiga meirihluta í fjármálafyrirtækjum á almennum markaði til lengri tíma.

Í eigandastefnunni var lýst yfir áformum um að selja allan eignarhlut ríkisins í Íslandsbanka og Arion banka. Þá yrði stefnt að því að selja stóran hluta í Landsbankanum en að ríkið myndi þó áfram eiga verulegan eignarhlut í bankanum, eða um 34-40%, til langframa „til að stuðla að stöðugleika í fjármálakerfinu og tryggja nauðsynlega innviði þess“. Jafnframt væri stefnt að skráningu bankans á hlutabréfamarkað.

Í uppfærðri eigandastefnu sem tók gildi árið 2020 segir að ákvörðun um sölu á hlut í Landsbankanum verði ekki tekin fyrr en sölu á öllum eignarhlut í Íslandsbanka er lokið. Í fjármálaáætlun 2024-2028 er gengið út frá því að seldur verði eftirstandandi hlutur ríkisins í Íslandsbanka í ár og á næsta ári.

Söluferli Íslandsbanka hófst með frumútboði sumarið 2021. Birna Einarsdóttir, þáverandi bankastjóri Íslandsbanka, og Magnús Harðarson, forstjóri Kauphallarinnar, eru hér á fyrsta viðskiptadegi með hlutabréf bankans.
© Eyþór Árnason (Eyþór Árnason)

Hvað varðar stefnu ríkisins að eiga áfram verulegan hlut í Landsbankanum þá er áhugavert að rifja upp eftirfarandi ummæli Benedikts Gíslasonar, bankastjóra Arion banka, í Áramótum 2021, tímariti Viðskiptablaðsins og Frjálsrar verslunar.

„Við vitum að ríkið mun alltaf eiga lykilhlut í Landsbankanum, sem er svipuð nálgun og Norðmenn hafa farið. Mér finnst þetta skynsamleg nálgun í landi sem er með sjálfstæðan gjaldmiðil. Ef þú vilt tryggja sjálfstæði myntarinnar þá verðurðu um leið að tryggja að höfuðstöðvar stærsta bankans séu í þínu landi,“ sagði Benedikt.

Fréttin er hluti af ítarlegri umfjöllun um helstu tækifæri ríkisins til einkavæðingar sem finna má í nýjasta tímariti Frjálsrar verslunar sem kom út 20. mars 2024.