Þjóðarsáttarsamningarnir sem gerðir voru árið 1990 á vinnumarkaði skiptu miklu máli um hversu vel tókst til að innleiða þær umbætur sem ráðist var í á ríkisrekstrinum árin á eftir að mati Friðriks Sophussonar, sem leiddi þá vinnu í embætti fjármálaráðherra. Með samningunum hafi skapast stöðugleiki sem tryggði áratug af vinnufrið.
Meðal ástæðna þess að svo víðtæk og sögulega sjaldgæf sátt myndaðist nefnir Friðrik taumlausa verðbólguna og ofþenslu ríkisins, sem rekið var með verulegum halla.
„Þetta sáu þáverandi forystumenn á vinnumarkaði og sameinuðust gegn þessari ógn með aðild ríkisvaldsins. Unga fólkið studdi þessa aðgerð enda óttaðist það erlenda skuldasöfnun ríkisins – ekki síst vegna svokallaðra Barnalána, sem ríkið tók á fyrri hluta níunda áratugarins.“
Þau lán voru í Sterlingspundum og jafngiltu samanlagt 23 milljörðum króna á verðlagi dagsins í dag, eða ríflega 1,7% landsframleiðslu sem samsvarar um 65 milljörðum króna fyrir árið 2022. Þetta voru svokölluð vaxtagreiðslulán, til 35 ára, sem báru 14,5% fasta vexti sem greiddir voru árlega, en höfuðstóllinn var allur greiddur í lokin. Ýmsum þótti sem verið væri að færa skuldirnar frá þeim sem stóðu fyrir þeim til næstu kynslóðar, sem sæti uppi með reikninginn, og var það ástæðan að baki viðurnefninu.
„Skoðanakannanir á þessum tíma leiddu í ljós að erlendar skuldir ríkisins voru orðnar stærsti ótti ungu kynslóðarinnar, sem fram að því hafði helst haft áhyggjur af kjarnorkuvánni.“
Nánar er rætt við Friðrik í nýjasta tölublaði Frjálsrar verslunar. Áskrifendur geta lesið viðtalið í heild hér.