Orðatiltækið sem yfirskrift greinarinnar vísar til hefur verið notað um þá athöfn einstaklings þegar gengið er í hjúskap sem leiðir til eignarauka viðkomandi. Fyrir löngu var í lögum um tekjuskatt beinlínis tekið á þessu. Árið 1971 var í ákvæði þeirra um hvað ekki teldist til tekna kveðið á um að „Eignarauki… af stofnun hjúskapar…“ leiddi ekki til tekjufærslu. Þessi texti var, fyrir áratugum, felldur brott úr lögunum. Undirritaður kann ekki skýringu á því hvort brottfallið þýði að þeir sem giftast til fjár þurfi að hafa áhyggjur af því að ríkið skattleggi herlegheitin. Um það virðist ekki finnast dæmi í framkvæmd – en þó allavega eitt í tengslum við sambúðarslit.
Þeir sem aðhyllast framtakssemi og nýsköpun í skattheimtu hafa kannski áhuga á að taka það til skoðunar hvort ríkisvaldið hafi um árabil orðið af mögulegum tekjum. Hvort mögulegt sé að skattleggja þá sem ganga í hjúskap – nú eða þá sem ganga úr hjúskap.
Rekstur fyrir hjúskap
Nú er ekki útilokað að einhverjum þyki ofangreindar vangaveltur þvílík firra að ekki sé efni til þess að eyða í þær orðum. Víkur þá að breytingu á lögum um tekjuskatt frá árinu 2017. Þá var tekin upp sú nýlunda að tekjur manna af útleigu íbúðarhúsnæðis teljist stafa af atvinnurekstri. Undantekning frá því á við um tekjur af langtímaleigu, ef viðkomandi á ekki fleiri en tvær fasteignir til útleigu.
Möguleikarnir eru því tveir, leigan er atvinnurekstur eða ekki. Í grófum dráttum þýðir atvinnurekstur að tekjur af fasteignunum eru skattlagðar í almennu tekjuskattshlutfalli, allt að 46%. Ef ekki eru tekjurnar í raun skattlagðar í 11% skatthlutfalli. Til einföldunar er horft fram hjá kostnaði og skattþrepum.
Nú kynni einhver telja að ríkisvaldið hafi ekki sterkar skoðanir á því hvort einstaklingur sem á tvær fasteignir í útleigu tekur upp á því að ganga í hjúskap. Né því hvort makinn á einnig fasteign í útleigu. Sá sem ætlar ríkisvaldinu slíkt umburðarlyndi gagnvart hjúskap fær og stuðning af lestri laganna. Þau geyma engan texta um slíkt uppátæki sem hjúskapur eigenda leiguhúsnæðis er. Þá styður eftirfarandi texti laganna sömu afstöðu: „Hjón eru sjálfstæðir skattaðilar hvort um sig og skal þeim ákveðinn tekjuskattur hvoru í sínu lagi.“
Hins vegar liggur fyrir óbirt skoðun embættis ríkisskattstjóra á þessu og er þannig: „Við höfum túlkað regluna… um tvær eignir í útleigu þannig að hámarkið, tvær íbúðir, gildi líka um hjón. Heimild hjóna er því takmarkaðri en samanlögð heimild tveggja einstaklinga.“
Þannig geta þeir sem hyggja á hjúskap nú yljað sér við þá hugmynd að af athöfninni leiði atvinnurekstur í heimanmund frá ríkisvaldinu. Þá má búast við árlegum reikningi frá sama ríkisvaldi að auki enda gildir miklu hærra skatthlutfall en áður.
Skoðum sömu rök um einstaklinga í hjúskap sem eiga hvor um sig eina eign í útleigu. Ef annar þeirra færir sig þannig upp á skaftið að hann kaupi aðra eign til útleigu, þá gerist það sama ef ríkisskattstjóri hefur rétt fyrir sér. Hefst þar með snarlega atvinnurekstur með öllu því sem fylgir. Sama gildir ef annað hjóna yrði fyrir því að erfa fasteign sem er leigð út.
Hvaða reglur gilda?
Undirritaður er ósammála ofangreindri afstöðu ríkisskattstjóra. Lög um tekjuskatt eru hins vegar afskaplega rýr að því er varðar mögulega skattlagningu hjóna vegna samskipta þeirra. Ákvæði Stjórnarskrárinnar kveða á um að skattar verði ekki lagðir á nema örugglega sé heimild fyrir þeim í lögum og að allir skuli vera jafnir fyrir lögum, þeir sem ganga í hjúskap eru ekki sérstaklega undanskildir.
Almennt er það afstaða undirritaðs því að rétt sé að skattgreiðandinn njóti vafans – en sú er ekki alltaf raunin. Þá geta margs konar eignatilfærslur, greiðslur eða athafnir við stofnun, innan og við lok hjúskapar valdið álitaefnum varðandi skattlagningu. Kannski hefur ríkið hug á skattlagningu í slíkum tilfellum, lögin geyma ekki skýrar reglur.
Vissulega er það svo að ofangreint er ritað af ákveðinni léttúð. Hins vegar er það svo að þó lagatexti um að eignarauki af stofnun hjúskapar sé ekki skattlagður sé yfir hálfrar aldar gamall þá er tilvitnuð afstaða ríkisskattstjóra um leigu frá 2022.
Greinin birtist fyrst í Viðskiptablaðinu þann 22. september.