Málflutningur Svandísar Svavarsdóttir matvælaráðherra og Páls Gunnars Pálssonar, forstjóra Samkeppniseftirlitsins, eftir að þau voru gerð afturreka með samning sín á milli um athugun á stjórnunar- og eignatengslum í sjávarútvegi vekur furðu.
Í fyrsta lagi lætur matvælaráðherra ekkert tækifæri úr greipum sér renna til að reyna að gera sjávarútveginn tortryggilegan og þær þúsundir sem við hann starfa og talar um skort á gagnsæi í greininni. Í öðru lagi kveður forstjóri Samkeppniseftirlitsins í torræðum tón um að maðkur kunni að vera í mysunni í sjávarútveginum.
Páll Gunnar var í drottningarviðtali í Silfrinu á mánudaginn í síðustu viku. Þar lét hann eftirfarandi orð falla:
Það eru vísbendingar í nokkrum tilvikum í fortíðinni um að eignatengslin séu nokkuð víðtæk og kunni að leiða til þess að yfirráð yfir einstökum fyrirtækjum kunni að vera víðtækari og þá meiri samþjöppun heldur en opinber gögn gefa til kynna.
Þessi ummæli verður að skýra frekar. Sem forstjóri Samkeppniseftirlitsins hefur Páll Gunnar rannsakað fjölda samruna, fengið öll gögn um eignarhald, beint og óbeint, og óskað frekari gagna sem leiða kunna í ljós hvort einstakir aðilar eða hópar aðila séu tengdir þannig að líta megi svo á að þeir fari með yfirráð í reynd. Þessar rannsóknir hafa ekki kallað á nein veruleg viðbrögð af hálfu Samkeppniseftirlitsins og virðast því óljósar yfirlýsingar forstjórans til þess eins fallnar að réttlæta málflutning matvælaráðherra um hið meinta ógagnsæi.
Vegferð forstjórans er ekki síður undarleg í ljósi þeirrar staðreyndar að ekkert í samkeppnislögunum fjallar um hámark aflahlutdeildar einstakra útgerða í nytjastofnum. Það er hins vegar gert í lögum um stjórn fiskveiða en í þeim eru að finna takmarkanir á aflahlutdeild fiskiskipa í eigu einstakra aðila, einstaklinga eða lögaðila, eða í eigu tengdra aðila. Það er Fiskistofa sem hefur eftirlit með þessu ákvæði en ekki Páll Gunnar Pálsson og hans fólk í Samkeppniseftirlitinu.
Ekki hefur borið á gagnrýni á Fiskistofu í þessum efnum. Eins og Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, hefur bent á þá kemur fram í skýrslu Ríkisendurskoðunar um eftirlit Fiskistofu frá árinu 2019 að Fiskistofa telur sig hafa uppfyllt eftirlitsskyldu sína með samþjöppun aflaheimilda. Einnig kemur fram í skýrslunni að atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið, forveri matvælaráðuneytisins, taldi Fiskistofu fullfæra til þess að sinna eftirliti með samþjöppun í sjávarútvegi.
Heiðrún Lind ritar grein í Morgunblaðið 14. október. Þar segir:
En það skal viðurkennt, að það er afar óljóst af lestri fjölda greina sem matvælaráðherra hefur ritað um gagnsæi og traust í sjávarútvegi, hvað það er nákvæmlega sem á skortir af opinberum upplýsingum um sjávarútveg. Engin atvinnugrein, hvort heldur hér á landi eða á hinum alþjóðlega vettvangi sjávarútvegs, hefur jafn mikið magn upplýsinga aðgengilegt hverjum þeim sem vill afla sér frekari þekkingar. Kapp er best með forsjá, eins og sagt er. Það hefði ráðherra gjarnan mátt hugleiða áður en hún staðhæfði í nýjustu grein sinni að atvinnugreinin stæði vörð um leynd. Ekkert er fjær lagi, en kappið um að ala á vantrausti í garð atvinnulífs virðist hafa byrgt ráðherra sýn.
Hægt er að taka undir hvert orð. Á sama tíma má velta fyrir sér hvers vegna heyrist ekki meira í talsmönnum atvinnufrelsis á vettvangi stjórnmálanna og hvað þeim finnst um þessa framgöngu matvælaráðherra og forstjóra Samkeppniseftirlitsins.