Tý var brugðið eins og flestum þegar þeir heyrðu um brunann í Kringlunni. Ljóst er að tjónið er umtalsvert.

Í því ljósi er mesta furða að ríkisstjórnin hafi ekki enn tilkynnt um sérstakan aðgerðarpakka vegna brunans. Hún hefur ekki einu sinni skipað aðgerðarhóp vegna málsins.

***

Það er óskiljanlegt í ljósi verka ríkisstjórnanna. Vafalaust skýrist þetta af því að ráðherrar hafa verið uppteknir vegna þingloka og vantrauststillögunnar á Bjarkey Olsen matvælaráðherra. Ekki er hægt að útiloka að myndarlegur aðgerðarpakki vegna Kringlubrunans verði þó kynntur fljótlega og starfshópur skipaður nú þegar búið er að semja um þinglok.

Í eitthvað þarf að eyða peningum skattgreiðenda.

Sennilega gerist það um leið að Lilja Alfreðsdóttir ferðamálaráðherra tilkynnir endanlega um hversu mörg hundruðum milljónum ríkissjóður ætlar að verja í auglýsingaherferð erlendis þar sem er dásamað að borða rúnstykki sem kostar 20 Bandaríkjadali í Dacia Duster frá einhverri af bílaleigunni.

Stjórnvöld telja nefnilega að engin tengsl séu á milli raungengis íslensku krónunnar og áhugamanna ferðamanna til að heimsækja landið.

***

Talandi um þinglokin. Væntanlega fagna margir því að mannréttindi hér á landi eru loksins tryggð með lögfestingu frumvarps um stofnun Mannréttindaskrifstofu Íslands. Það er að segja mannréttindi utan höfuðborgarinnar. Mannréttinda- og lýðræðisskrifstofa Reykjavíkur hefur tryggt mannréttindi borgarbúa um árabil ásamt því að halda utan um nákvæma tölfræði um kyn hunda í borginni.

Væntanlega fagnar enginn stofnun Mannréttindaskrifstofu Íslands meira en Kristján Loftsson, eigandi Hvals. Með stofnun skrifstofunnar fjölgar valmöguleikum hans til að koma fjölmörgum brotum ráðherra ríkisstjórnarinnar á mannréttindaákvæðum stjórnarskrárinnar um atvinnufrelsi í viðunandi farveg.

Fram til þess hefur hann þurft að leita til umboðsmanns Alþingis. En það er gott að hafa val en það kemur þó Tý á óvart að borgaralegum sinnuðum þingmönnum telji það að eigi við
opinberar stofnanir.

Sú framganga öll ásamt ásetningsbrotum á meðalhófsreglu í boði matvælaráðherra Vinstri grænna á eftir að kosta skattgreiðendur þessa lands milljarða. Það er kannski lítið mál í augum þeirra sem telja að það sé „nóg til“.

Týr er einn af föstum ritstjórnardálkum Viðskiptablaðsins. Þessi pistill birtist í blaðinu sem kom út 26. júní 2024.