Eftirfarandi gæti verið sniðugt ef fólk er að leita að skemmtilegum eftirrétti eða jafnvel einhverju á fermingarhlaðborðið. Auðvelt er að setja hrísgrjónabúðing í sparifötin með hvítu súkkulaði og ferskum ávöxtum.
Hráefni
- 400 ml kókosmjólk
- 400 ml rjómi
- 115 g jasmínhrísgrjón
- 85 g sykur
- kornin úr vanillustöng
- e.t.v. 100 g hvítt súkkulaði
- ávextir eftir smekk
- balsamsíróp
Aðferð
Settu kókosmjólk, rjóma, hrísgrjón, sykur og vanillukorn í pott og láttu sjóða við hægan hita í um hálftíma, eða þar til grjónin eru meyr og grauturinn þykkur. Hrærðu öðru hverju svo að grjónin brenni ekki við. • Ef þú vilt hafa búðinginn mjög stífan geturðu saxað hvítt súkkulaði, sett það út í þegar grjónin eru fullsoðin, tekið pottinn af hitanum og hrært þar til súkkulaðið er bráðið.
- Breiddu plastfilmu á bakka og smyrðu þykku lagi af hrísgrjónabúðingi á filmuna. Legðu aðra filmu ofan á og kældu yfir nótt.
- Skerðu eða mótaðu kaldan búðinginn í litla bita. Skerðu ávextina í þunnar sneiðar og raðaðu þeim ofan á bitana stuttu áður en búðingurinn er borinn fram. Berðu bitana fram með balsamsírópi. Ávextir eftir smekk, skornir í þunnar sneiðar.
Súkkulaði-nori:
- 200 g mjólkursúkkulaði
- 75 ml hunang eða síróp »» Hrísgrjónabúðingur
Bræddu súkkulaðið og blandaðu hunangi saman við. Geymdu blönduna undir plastfilmu við stofuhita. Settu súkkulaðideigið á milli tveggja bökunarpappírsarka og flettu það þunnt út með kökukefli (ef það er of hart má mýkja það í nokkrar sekúndur í örbylgjuofni). Smyrðu hrísgrjónabúðingi á deigið, raðaðu ávaxtasneiðum ofan á, vefðu rúlluna upp í sívalning og hertu að með smjörpappír. Rúllan á að líta út eins og maki-rúllurnar sem allir sushi-sérfræðingar (sem eru orðnir margir þessa dagana) ættu að kannast við. Skerðu rúllurnar í sneiðar með beittum hníf – best er að hita blaðið á hnífnum fyrst – og skera svo í maki bita.
Grein Bjarna birtist í Viðskiptablaðinu 3. apríl 2014. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .