Árið 2019 var ekki gott ár í efnahagslegu tilliti. Líklega verður enginn hagvöxtur á árinu þó að Hagstofa hafi mælt 0,2% hagvöxt fyrstu níu mánuðina. Sem heita má óskiljanlegt í ljósi þess að nánast allt fellur með okkur þessi dægrin í efnahagslífinu.
Fall Wow Air hafði vissulega sín áhrif, en lausafjárkreppan í landinu hefur haft enn verri afleiðingar. Seðlabankinn er hættur að lækka vexti og vill sjá áhrif vaxtalækkana áður en lengra er haldið. Heimur hagfræðinnar er þó ekki fullkomlega fyrirsjáanlegur og undanfarið hafa vextir á markaði hækkað þrátt fyrir stýrivaxtalækkanirnar.
Það eru kjöraðstæður fyrir viðskiptabankana að leggja á okurvexti og Arion banki er í óðaönn að taka upp viðskiptahögun Kviku banka. Bönkunum er svosem vorkunn eins og ríkisvaldið þjarmar að þeim: Sérstakur bankaskattur og gjaldtaka, eiginfjárkröfur, bindiskylda, vaxtalaus innlán í Seðlabanka; þungbært og kostnaðarsamt eftirlit, svo eitthvað sé nefnt, sligar bankana. Nægir að líta til Norðurlandanna um hversu fráleit rekstrar- og samkeppnisskilyrði íslensku bankarnir búa við. Hver skyldi nú á endanum bera kostnaðinn af því?
***
Talsmenn ríkisrekstrar á bönkum hafa e.t.v. ekki áttað sig á því að rekstur Landsbankans gengur svo glimrandi vel að nauðsynlegt var á árinu að gefa út víkjandi skuldabréf svo bankinn gæti staðið undir kröfu um arðgreiðslu frá fjármálaráðuneytinu. Og fjárfestingarkostir svo undursamlegir að bankinn veit engan betri en að fjárfesta í steinsteypu undir sjálfan sig. - Er ekki tímabært að berjast fyrir aðskilnaði ríkis og banka?
Það eru gríðarleg umbrot í bankaheiminum þessi árin. Fjármálakreppa og fjártæknibylting hefur veikt þá og virði þeirra mun minnka örar á næstu árum. Er skynsamlegt að íslenska ríkið bindi svo ákaflega mikið fé í ósamkeppnisfærum bankarekstri? Er það áhætta sem skattgreiðendur vilja fúsir bera? Hafa menn ekkert lært og öllu gleymt um að hér varð hrun? Og hvað varð um þær hugmyndir fjármálaráðherra að afhenda almenningi eignarhald í ríkisbönkunum með beinum hætti?
***
Nú er verið að skipa í embætti varaseðlabankastjóra fjármálastöðuleika. Það val skiptir máli því hann mun vafalaust miklu ráða um hvort krónuskortur verður viðvarandi í hagkerfinu.
Þá rifjast upp frétt fyrir Óðni, sem Ríkisútvarpið flutti haustið 2010, um að tjón, sem ráðherrar hefðu valdið með vanrækslu sinni í bankahruninu, hafi numið a.m.k. 11.000 milljörðum króna. Í næsta fréttatíma var talan leiðrétt og var víst 1.000 ma.kr. Í hádegisfréttum RÚV um daginn kom enn ein frétt eins og enginn hefði verið gærdagurinn. Viðmælandinn sá sami og kvöldið áður, Guðrún Johnsen, lektor í HR og síðar stjórnarmaður í Arion banka. Þá hafði tjónið víst minnkað í 400-500 milljarða.
Guðrún, sem nú er meðal umsækjenda um varabankastjórastarfið, sagði að tjónið fælist að miklu leyti í gjaldþroti Seðlabankans. Er rétt að vera með varabankastjóra í Seðlabankanum sem er ókunnugt um að seðlabanki getur ómögulega orðið gjaldþrota í eigin mynt? Einnig giskaði Guðrún á að beint tjón ríkissjóðs myndi verða a.m.k. 100 milljarðar vegna Icesave. Það reyndist markleysa eins og allir helstu lögfræðingar landsins höfðu sagt.
En þetta er aukaatriði. Aðalatriðið er að í Seðlabankann á ekki að veljast fólk sem veldur múgæsingu og ringulreið meðal landsmanna, síst auðvitað til þess að vera æðsti varðstöðumaður peningalegs stöðugleika landsins. Til gamans má svo geta að seðlabankastjórinn Ásgeir Jónsson lagði ásamt Hersi Sigurgeirssyni mat á tjón ríkissjóðs vegna ætlaðrar vanrækslu ráðherranna. Það reyndist á endanum vera hagnaður upp á 286 milljarða að nafnverði.
***
Forsætisráðherrann Katrín Jakobsdóttir ber ábyrgð á skipan varaseðlabankastjóra. Vona verður að ekki fari fyrir bankakerfinu eins og raforkukerfinu í óveðrinu á dögunum.
Engir hafa barist jafneinarðlega gegn uppbyggingu raforkukerfisins á Íslandi og Vinstrigræn. Allt til þess að aftra stóriðju. Nema reyndar á Bakka og í Helguvík. Í tíð norrænu velferðarstjórnarinnar 2009-2013 ákváðu Vinstrigræn að nota skattfé til að greiða niður byggingarkostnað og rekstur tveggja kísilverksmiðja. Því er spáð að þegar kísilverksmiðjur United Silicon í Helguvík og PCC á Bakka við Húsavík ná fullum afköstum muni kolanotkun hafa aukist um 60% á Íslandi. Aldarfjórðunginn á undan jókst hún um 100% þess utan. Það er sögulegur árangur hjá Vinstrigrænum í loftlagsmálum.
Þegar óveðrinu 10. desember slotaði kom í ljós að það voru fyrst og fremst heimilin í landinu sem urðu fyrir barðinu á lélegu viðhaldi raforkukerfisins. Ætli þeir rafmagnslausu norðanmenn, sem kusu Steingrím J. og Katrínu J. vegna kolaversins á Bakka, muni þakka þeim það í kjörklefanum aftur?
Óðinn er pistill sem birtist í Áramótariti Viðskiptablaðsins og Frjálsrar verslunar. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .
Hægt er að kaupa eintak af tímaritinu hér.