Það kom hröfnunum ekki á óvart að Birna Einarsdóttir bankastjóri Íslandsbanka hafi hrökklast úr starfi eftir að gert var grein fyrir sátt bankans við fjármálaeftirlit Seðlabankans, vegna fjölda misbresta á útboði til fagfjárfesta á hlutabréfum bankans í fyrra.

Ljóst er af fyrstu viðbrögðum Birnu og hennar fólks við sáttinni fyrir helgi að stjórnendur bankans hafi ekki gert sér neina grein fyrir alvarleika brotanna eins og þeim er lýst af hálfu fjármálaeftirlits SÍ.

Eins og fram kemur í tilkynningu sem send var á fjölmiðla í nótt hefur Birna nú þegar komist að samkomulagi við stjórn bankans um starfslok hennar. Hrafnarnir gera ráð fyrir í því samkomulagi sé að finna ákvæði um starfslokagreiðslur.

Spennandi verður að sjá útfærsluna á þeim. Á undanförnum árum hafa tveir bankastjórar látið af störfum. Þeir Höskuldur H. Ólafsson og Steinþór Pálsson.

Þegar sá síðarnefndi hætti í Landsbankanum samdi hann um að fá greidd laun í tólf mánuði eftir starfslok og nam heildargreiðslan ríflega 23 milljónum.

Starfslokasamningur Höskuldar var hins vegar rausnarlegri. Hann fékk 150 milljónir greiddar frá Arion banka eftir að hann lét af störfum.

Guðrún Johnsen, efnahagsráðgjafi VR, sat þá í stjórn Arion banka og réttlætti þessar greiðslur með því að segja að Höskuldur hafi verið ansi fastur fyrir í samningum um starfslokin.

Huginn og Muninn er einn af skoðanadálkum Viðskiptablaðsins.