Sveitarstjórnarkosningar munu fara fram um helgina eftir skrítna og snarpa kosningabaráttu. Baráttan hófst seinna en ella því hún sem næst drukknaði í pólitískum þvælingi um bankasöluna og hefur hún því ekki náð að þroskast að neinu marki og aðalatriðin ekki náð upp á yfirborðið. Borgarstjóri gengur fram með sömu gömlu kosningaloforðin sem aldrei hafa verið efnd, kjörtímabil eftir kjörtímabil, og nóg virðist vera af flónum sem gleypa við þeim án þess að líta um öxl og skoða afrek meirihlutans.
* * *
Borgarsjóður safnar skuldum sem aldrei fyrr þrátt fyrir að tekjustofnar hafi þanist út í krafti hækkandi húsnæðisverðs, húsnæðisverðs sem hefur hækkað skarpt undanfarin ár vegna þess að borgin hefur ekki úthlutað nægum lóðum og vanrækt uppbyggingu í áraraðir. Útsvar er í hæstu hæðum en þjónustan afburðaléleg. Götur eru skítugar og viðhaldi víða ábótavant, skólarnir eru myglaðir, leikskólabiðlistarnir sem á að stytta fyrir hvert kjörtímabil hafa lengst enn frekar en börn skráð á ímyndaða leikskóla til að fegra tölfræðina fyrir kosningar. Fjölskyldufólk sem neyðist til að sækja grunnþjónustu út fyrir borgina flýr unnvörpum til nágrannasveitarfélaga. Það gera fyrirtæki einnig m.a. vegna hárra fasteignaskatta og vonlausra skipulagsmála. Borgin er þar fyrir utan skammarlaust í samkeppnisrekstri við fyrirtæki og keppir við þau um sérfræðimenntað starfsfólk í stað þess að útvista til þeirra verkefnum.
Trekk í trekk er farið illa með peninga útsvarsgreiðenda, en skemmst er að minnast braggamálsins, mathallarinnar á Hlemmi og hálfvitans við sjávarlengjuna, þar sem kostnaður hefur farið svo yfirgengilega fram úr áætlunum við einföldustu verk að maður getur ekki annað en velt því fyrir sér til hvers þær eru yfirhöfuð gerðar. Verkefnum hefur ítrekað verið úthlutað til vina og vandamanna, samanber braggamálið. Það virðist vera regla frekar en undantekning að lög séu brotin við útboð þeirra verka sem þó eru boðin út, sem veldur gríðarlegum aukakostnaði.
* * *
Það er þyngra en tárum taki að sjá þann meðbyr sem meirihlutinn í borginni virðist njóta samkvæmt skoðanakönnunum þrátt fyrir að hafa verið með allt niðrum sig í áraraðir. Vonandi endurspegla tölurnar hug kjósenda jafn illa og árangur meirihlutans.
Týr er skoðanadálkur sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .