- „Það vil eg að þeir ráði sem hyggnari eru; því verr þykir mér sem oss muni duga heimskra manna ráð, er þau koma fleiri saman.” - Ólafur pái Höskuldsson frá Laxárdal.
Fyrsti þáttur
Lárus Blöndal ráðlagði Bjarna Benediktssyni, formanni Sjálfstæðisflokksins, eindregið að samþykkja þriðja Icesave samninginn ásamt mjög fámennum hópi manna.
Sá samningur var skástur þeirra þriggja, en samt ákaflega vondur og hefði kostað ríkissjóð 80-90 milljarða króna, í erlendri mynt sem ekki lá á lausu í þá daga.
En verstur var hann fyrir þær sakir að þar með hefðu skattgreiðendur tekið á sig skuldir einkabanka sem fór á hausinn og þar með gefið ömurlegt fordæmi til framtíðar.
Hinir almennu sjálfstæðismenn voru miklir andstæðingar allra samninganna þriggja í Icesave málinu. Bjarni Benediktsson og Sjálfstæðisflokkurinn voru á þessum tíma í stjórnarandstöðu, svo staðan hefði hugsanleg verið snúnari ef flokkurinn hefði verið i stjórn og Bjarni fjármálaráðherra. En það var ekki nokkur vitglóra í því fyrir stjórnarandstöðuflokk að taka að sér það hlutverk að bera ábyrgð á þessum vonda samning.
- Þegar EFTA dómstólinn komst að þeirri niðurstöðu í lok janúar 2013 að íslenska ríkið bar enga ábyrgð á skuldum Landsbanka Íslands hrundi fylgi Sjálfstæðisflokksins umsvifalaust. Það fór úr 36% í 26%. Síðan hefur fylgið aldrei farið yfir 30% samkvæmt Gallup.
Hæst fór fylgið eftir hrun samkvæmt Gallup í 39,3% í maí 2012. Það er því mikill misskilningur að slakt gengi flokksins í kosningum, og könnunum, sé hruninu að kenna. Þó vissulega hafi það einhver áhrif haft.
Annar þáttur
Árið 2022, tæpum 10 árum eftir að Lárus Blöndal gaf sín vondu ráð til Bjarna Benediktssonar, þá tók hann að sér að selja hlut í Íslandsbanka. Týr ætlar ekki að fara yfir það mál efnislega enda því miður enn í fersku minni.
Það vita hins vegar allir, sem eitthvað vita um stjórnmál, að menn fara ekki í viðkvæm og umdeild mál rétt fyrir kosningar. Gallup kannaði hug sjálfstæðismanna til sölunnar, sem og annarra, og niðurstaðan sú að yfirgnæfandi meirihluta þeirra leist ekkert á hana.
Það er ástæða til að fara yfir fylgi flokksins á landsvísu á umliðnum mánuðum og áhrif þessarar misheppnuðu bankasölu á það. Fylgið hefur aldrei verið lægra í sögu mælinga Gallup og líklega aldrei í sögu flokksins. Það lækkar um 2,9% milli kannanna þó ólíklegt er að lækkunin sé varanleg.
Þriðji þáttur - og vondandi sá síðasti
Útkoman í sveitarstjórnarkosningunum var sérstaklega slæm í Reykjavík þar sem ekki nokkur vafi er á að því að bankasalan hafði veruleg áhrif og þar náði kosningabaráttan þar aldrei nokkru flugi. Fleiri ástæður má sjálfsagt tína til, en heilt yfir litið virtist bankasalan hafa kostað sjálfstæðismenn nokkur prósent – 3% hafa verið nefnd að meðaltali - í þeim sveitarfélögum sem hann bauð fram. Það hafði sitt að segja um sigra (oftast varnarsigra) og ósigra annars staðar á landinu, þó vafalaust ráði staðbundin málefni miklu.
En fyrir flokk sem hefur tapað fylgi jafnt og þétt frá hruni þá blasir við að 3% geta oft og víða skilið milli feigs og ófeigs og hann má ekki við slíkum axarsköftum.
Allt tal stjórnmálaspekinga Ríkisútvarpsins og hinna vinstri miðlanna um að formannsskipti fari brátt fram í Sjálfstæðisflokknum er hugarburður og auðvitað aðeins tilraun til að koma óróa af stað innan Sjálfstæðisflokksins. Sem er nánast enginn þrátt fyrir vonda stöðu.
En Bjarni Benediktsson og forysta flokksins þarf að taka þessa stöðu alvarlega. Það jákvæða við hana er að hún getur vart versnað og því liggur leiðin að líkindum aðeins upp á við.
Flokkforystu til forystu í flokknum
Þetta gerist þó ekki án breytinga. Sjálfstæðisflokkurinn í Reykjavík er rjúkandi rúst sem formaðurinn hefur ekkert skipt sér af. Miðstjórn flokksins sem í eina tíð var skipuð þungavigtafólki úr íslensku þjóðlífi hefur í dag ekkert vægi. Það sem mestu skiptir er að sárafáir kjörnir fulltrúar flokksins á Alþingi tala fyrir stefnu flokksins. Týr er reyndar ekki viss um að allir þeirra þekki stefnuna sem var mörkuð fyrir næstum hundrað árum og er sígild.
Það er hins vegar ástæða til þess að rifja hana upp, jafnvel fyrir flokksforystunni og vinum hennar.
Þar mætti nefna Lárus Blöndal, sem hefur unnið fáheyrt þrekvirki. Nú veit Týr ekki hvort hann hafi fitnað á margvíslegu vafstri sínu fyrir flokkinn, en hitt veit hann, að Sjálfstæðisflokkurinn hefur ekki fitnað á liðsinni Lárusar.
Þrekvirkið er varanlegt fylgistap vegna Icesave III, sem nam 10 prósentustigum eða næstum þriðjungi fylgisins áður en EFTA-dómstólinn komst að hinni einu réttu lögfræðilegu niðurstöðu. Fylgistapið í könnun Gallup á landsvísu var 2,9 prósentustig vegna bankasölunnar.
Fróðir menn telja að áhrif sveitarstjórnarstjórnarkosningar sé 3% lakara fylgi en ella. Erfitt er að fullyrða um það. Enn erfiðara er að segja til um fylgistapið í Reykjavík, en þeir Dagur B. Eggertsson og Einar Þorsteinsson eru Lárusi Blöndal afar þakklátir og munu veita honum andaorðuna, æðstu orðu nýs meirihluta í Reykjavík, þegar þeir – menn hina mörgu orða um ekki neitt – hafa tekið við embættum sem formaður borgarráðs og borgarstjóri.
Fyrsta skrefið að betri árangri Sjálfstæðisflokksins hlýtur að vera það, að formaður flokksins sæki héðan í frá ráð til Ólafs í Laxárdal í stað Lárusar í Blöndudal.
Týr er skoðunardálkur Viðskiptablaðins og vb.is.