Í upphafi síðasta árs skrifaði ég greinina Í upphafi skal (vaxta)endinn skoða sem birtist í þessu blaði. Bent var á að V/H (verð/hagnaður) hlutfall skráðra fyrirtækja væri ein besta vísbendingin um ávöxtun hlutabréfa þeirra næstu árin. Þetta var svo tekið skrefinu lengra þar sem áhersla var lögð á upphafspunkt vaxtastigs og mikilvægi þróunar vaxta frá þeim punkti. Sögulega séð hafa vaxtabreytingar verið einn helsti áhrifaþáttur í ávöxtun hluta- og skuldabréfa til meðallangs tíma.
Með lækkandi vaxtastigi hækkar virði langtímaeigna. Þetta þekkja flestir Íslendingar orðið vel af húsnæðismarkaði, þar sem mikil lækkun fasteignalánavaxta í upphafi heimsfaraldursins var ein stærsta breytan að baki sögulegri hækkun húsnæðisverðs síðustu ár. Svipuð þróun átti sér stað á mörkuðum með aðrar langtímafjárfestingar á borð við hluta- og skuldabréf.
Þessi vaxtaþróun hefur raunar verið að eiga sér stað í áratugi, en af meiri krafti síðustu 10 ár fram að yfirstandandi hækkunarferli. Viðvarandi lítil verðbólga og útbreiddur ótti við verðhjöðnun var helsti drifkraftur þeirrar þróunar.
Hækkandi vextir slá niður eignaverð
Í síðustu grein benti ég á að blikur væru á lofti, og að hækkaði vaxtastig þá myndu líklega margir hlutabréfafjárfestar færi sig yfir í skuldabréf.
Við það má bæta að í slíku umhverfi færa fjárfestar sig frekar í skuldabréf með stuttan líftíma þar sem lengri skuldabréf eru næmari fyrir vaxtabreytingum. Á þeim tíma taldi ég sjálfur að vaxtastig myndi haldast stöðugt, en tók þó fram að lítið þyrfti út af að bregða til að koma þeirri spá af sporinu. Þau varnaðarorð reyndust sannspá.
Nú, þegar að vaxtastig hefur hækkað mikið og mikil viðvarandi verðbólga virðist ætla að verða lífseigari en flestir töldu, hafa áhrifin á virði langtímaeigna ekki látið á sér standa. Húsnæðisverð hefur hér um bil staðið í stað í flestum löndum frá síðastliðnu vori , og jafnvel fallið töluvert, og ávöxtun hluta- og skuldabréfa hefur verið slök svo ekki sé fastar að orði kveðið.
Gengi S&P500 hlutabréfavísitölunnar hefur lækkað um 10% síðan áðurnefnd grein birtist og gengi íslenskra ríkisskuldabréfa á gjalddaga árið 2031 hefur fallið um svipað hlutfall. Úrvalsvísitalan hér á landi hefur fallið um 16% þrátt fyrir að leiðrétt sé fyrir arðgreiðslum á sama tíma og verðlag hefur hækkað um 14%.
Fáir telja að vaxtastig muni lækka á næstunni. Það er hins vegar fátt sem bendir til þess að verðbólga aukist að ráði heldur. Ekkert lát er á tækniframförum, sem jafnan leiða af sér lægri kostnað og verð. Stýrivextir gætu því hæglega farið að lækka á nýjan leik með litlum fyrirvara, sem hefði jákvæð áhrif á gengi hlutabréfa og skuldabréfa með langan líftíma.
Einfalt og árangursríkt að elta stýrivexti
Slíkar vangaveltur eru þó hugsanlega ónauðsynlegar fyrir fjárfesta. Í skýrslu sem Dimson, Marsh, og Staunton skrifuðu nýlega kemur fram að í raun sé einfalt fyrir fjárfesta að tímasetja fjárfestingar sínar miðað við stýrivaxtahækkanir.
Þeir settu saman fræðilegt eignasafn með þá fjárfestingastefnu að kaupa hlutabréf, skuldabréf og víxla ýmist þegar stýrivextir fóru að lækka eða öfugt, og héldu þeim fjárfestingum svo óbreyttum.
Í ljós kom að fjárfestar sem keyptu hlutabréf þegar að stýrivextir fóru að lækka fengu árlega raunávöxtun sem nam 9,7% í Bandaríkjunum og 8,5% í Bretlandi. Þessi ávöxtun var einungis 3,0% og 1,2% þegar keypt var í umhverfi hækkandi vaxtastigs.
Árleg raunávöxtun skuldabréfa var að meðaltali í kring um 3% á báðum svæðum í lækkandi vaxtaumhverfi, aðeins hærri í Bandaríkjunum, en aftur á móti nálægt núllinu þegar stýrivextir voru að hækka. Í Bretlandi var raunávöxtun skuldabréfa „einungis“ einu prósenti lakari að meðaltali á tímabilum stýrivaxtahækkana.
Fjárfestar ættu því ef til vill að halda að sér höndum fram að næstu stýrivaxtasveiflu niður á við, í það minnsta ef þeir treysta því að fortíðin endurspegli framtíðina. Þetta á sérstaklega við um fjárfestingar í verðbréfum sem eru næm fyrir almennum sveiflum verðbréfamarkaða, sem mótast að stórum hluta af vaxtaþróun hvers tímabils.
Til að lesa meira
Hægt að er kaupa áskrift að Viðskiptablaðinu, Fiskifréttum og Frjálsri verslun hér.
Verð frá 2.749 kr. á mánuði