Þegar ég sat í borgarstjórn afplánaði ég þrjú ár í íbúaráði Laugardals. Ég segi afplánaði því ég veit fátt ömurlegra en fundi sem hafa engan tilgang og skila engum niðurstöðum. Nýlegar fréttir af samskiptum borgarstarfsmanna staðfesta að íbúaráðin eigi hvorki að hafa tilgang né skila niðurstöðum.

Íbúaráðin voru endurvakin því Pírötum þykir mikilvægt að vera með íbúalýðræði þó það sé bara sýndarlýðræði. Píratar elska reyndar fátt meira en fundi með engan tilgang. Þannig má sjá á fundargerðum nýstofnaðs stafræns ráðs að þar er haldinn fundur eftir fund með engu á dagskrá nema kynningum; engar tillögur, engar niðurstöður, ekkert til að fylgja eftir.

Algjörlega valdlaus og þar með tilgangslaus.

Frá fyrsta fundi var ljóst að íbúaráðin eru algjörlega valdlaus og þar með tilgangslaus. Þar eru kynningar og fulltrúar íbúa hvattir til að bóka sína afstöðu. Þær bókanir hverfa í kerfinu án frekari áhuga á þeim.

Árlegur kostnaður við íbúaráðin hleypur á tugum milljóna. Formaðurinn sem í öllum tilfellum er duglegur frambjóðandi sem náði ekki árangri í kosningum fær á annað hundrað þúsund í laun á mánuði fyrir að stýra einum fundi. Að auki ná borgarfulltrúar sem sitja þar þriggja nefnda álagi og þar með 25% álagi á grunnlaunin. Það kom mér því stórkostlega á óvart að þegar niðurskurðartillögur voru kynntar nýlega vegna bágrar fjárhagsstöðu borgarinnar að sjá ekki íbúaráðin þar efst á lista.

Kannski finnst meirihlutanum mikilvægt að geta hakað í box um að upplýsingar hafi borist íbúum, þó bara þær upplýsingar sem hentar að þeim berist, eins og kom í ljós þegar starfsmenn íbúaráðanna og lýðræðisskrifstofu vörpuðu samskiptum sínum óvart á netið.

Íbúalýðræði í Reykjavík er bara plat. Þetta blasir við. Sem sendiboðinn bið ég um eitt: don’t shoot the messenger and don’t hate the player.