Kári Stefánsson, starfsmaður Íslenskrar erfðagreiningar, var fenginn til að vera með skemmtiatriði á sjómannadaginn í Grindavík um liðna helgi. Ræða Kára á skemmtuninni hefur vakið töluverða athygli og fjallað hefur verið um hana í fjölmiðlum. Þannig segir í umfjöllun Vísis síðastliðinn sunnudag:
„Útgerðarfélögin sem eiga öll skipin og kvótann eru hálfgerð glæpafélög sem arðræna íslenska þjóð og níðast á sjómönnum með því að hýrudraga þá með flóknum bókhaldstrikkum, til dæmis með því að eiga félög í útlöndum sem þau selja aflann á lágu verði sem svo áframselja hann á háu verði. Þessi saga er með öllu óásættanleg hvort sem hún er sönn eða login og ég vil leggja á það áherslu að með þessum orðum er ég á engan máta að leggja mat á sannleiksgildi. Sjómennirnir okkar eiga það einfaldlega ekki skilið að svona sé talað um atvinnugreinina. Þessu verður að breyta.“
Svo mörg voru þau orð. En þarna er málsmetandi maður að notfæra sér kastljósið til að lýsa þeirri skoðun sinni að ein af grundvallarútflutningsgreinum þjóðarinnar sé rekin eins og skipulögð glæpastarfsemi sem snúist um að hýrudraga sjómenn. Reyndar tekur Kári fram að vita ekkert um hvort sannleikur sé að baki þessari fullyrðingu hans og gagnrýnir svo sjálfan sig harðlega fyrir að tala með slíkum hætti um sjávarútveginn og að sjómenn eigi það ekki skilið. Hann klykkir út með því að segja að þessu þurfi að breyta. Nærtækt skref fyrir Kára væri að byrja á sjálfum sér.
***
En það að fjölmiðlum finnist sjálfsagt og eðlilegt að áhrifamaður í íslensku viðskiptalífi og fræðaheimi tali um sjávarútveg sem skipulagða glæpastarfsemi og að útgerðarmenn arðræni þjóðina segir eitt og annað um þá umræðuhefð sem hefur fest sig í sessi hér á landi. Hún virðist byggja á því að flytja fregnir af því að einhver fullyrði um að einhver ósómi eigi sér stað og sjaldnast er skyggnst á bak við þessar fullyrðingar.
Þannig hefði verið hægt að benda á í fréttaflutningi um skemmtiatriði Kára að launahlutfall línu- og frystitogara sem gerðir eru út frá Grindavík er á bilinu 40-42%. Arðránið fer ansi blíðum höndum um kallana í borð í þessum skipum greinilega og þá skal ekki ónefnt að engin atvinnugrein greiðir hærri tekjur hér á landi til starfsmanna en einmitt sjávarútvegurinn.
***
En Kári er ekki eini götusalinn á þessu horni. Þannig hafa gegnum tíðina sumir sem eru með þráhyggju fyrir nýrri stjórnarskrá athugasemdalaust notað stór orð um málið. Er mörgum í fersku minni þegar Ragnar Aðalsteinsson lögmaður boðaði valdarán hér á landi ef Alþingi hlýddi ekki kröfum hans og vina sinna um að taka upp nýja stjórnarskrá.
Kristrún Heimisdóttir lögfræðingur lét eftirfarandi um þau mál öll falla í viðtali við Morgunblaðið sumarið 2021:
„Stór orð og tifinningahiti hafa einkennt þetta mál frá upphafi, litað af þeim átökum og ólgu sem voru í samfélaginu á sínum tíma. Auðvitað eru margir sem líta svo á að þetta sé helg arfleifð Búsáhaldabyltingar. Að það hafi verið gerð bylting og margir litu svo á að það hafi verið byltingarástand í landinu. Það hefur óneitanlega tengst svolítið þessari hreyfingu, sem er að berjast fyrir þessum málstað í dag. Það er ekki stjórnlagaráðið sem er að berjast fyrir því, heldur ákveðnir hópar eins og Stjórnarskrárfélagið, sem hafa tekið þennan gunnfána upp.
Sú umræða hefur gengið svo langt að mætur maður eins og Ragnar Aðalsteinsson lögmaður lýsti því yfir í viðtali á Sprengisandi að valdarán væri eðlilegt svar ef „nýja stjórnarskráin“ tæki ekki gildi. En þá eru menn ekki lengur að virða stjórnarskrána og þar með hættir að virða grunngildi frjálslynds, stjórnarskrárbundins lýðræðis. Sem er grafalvarlegt.“
Vafalaust er eitthvað til í því hjá Kristrúnu að tengsl séu á milli orðræðu stjórnarskrármálsins svo kallaða og Búsáhaldarbyltingarinnar. En að sama skapi er ljóst að þarna er fleira undir og afmarkast þessi þróun alls ekki við Ísland. Í því samhengi má nefna ágæta bók frá árinu 2010 eftir bandaríska blaða- og fréttamanninn John Avlon. Bókin heitir Wingnuts: How the Lunatic Fringe Is Hijacking America og fjallar um hvernig órólegu deildirnar á báðum köntum stjórnmálabaráttunnar voru í þann mun sem bókin kom út að taka yfir alla pólitíska umræðu. Segja má að Avlon hafi með skarpskyggni sinni spáð fyrir um fyrirbrigði eins og Donald Trump þegar bókin kom út.
***
Avlon bendir á að þessi þróun einskorðist ekki við vinstri og hægri. Það bylur hæst í tómum tunnum á sitt hvorum kanti stjórnmálabaráttunnar og fjölmiðlar standa klárir með gjallarhornið og rétta að hverjum þeim sem lætur hæst þann daginn.
Ágætt dæmi um þetta mátti sjá í fréttum á fimmtudaginn fyrir viku. Þá mætti fréttamaður Vísis á Austurvöll og sagði frétt frá miklum mótmælum sem áttu sér stað um daginn. Fyrir mótmælunum stóðu Ýrr Baldursdóttir og Óli maðurinn hennar.
Ýrr segist hafa boðað til mótmælana í hvatvísi í fyrradag þegar hún var pirruð á ástand-inu í þjóðfélaginu. „Maður þarf ekkert endilega að vera jafn illa staddur til að finna til með fólkinu.“ Og Ýrr mætti á eigin mótmæli með Óla manninum sínum og fékk að launum langt viðtal við Vísi þar sem hún lýsti hvernig allt heimsins óréttlæti líti við henni – og Óla væntanlega líka.
Enginn annar mætti á mótmælin. En leiðsögumaður sem var þarna á gangi með ferðamenn spurði að vísu hvort þessi tveggja manna mótmæli gætu ekki verið aðeins lágværari þar sem hann var að útskýra fyrir viðskiptavinum sínum þýðingu Austurvallar fyrir landsmenn.
Nokkrum dögum síðar mátti sjá á opnum Facebook-reikningi Ýrar og Óla að þau teldu mótmælin vera að skila miklum árangri og vísuðu þau til að ríkisstjórnin hefði brugðist við kaupstaðarferð þeirra hjóna með því að tilkynna um aðgerðir í efnahagsmálum vegna verðbólgunnar.
Þetta er hluti úr Fjölmiðlapistli sem birtist í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast pistilinn í heild sinni hér.