Formaður Samfylkingarinnar fór nýlega ásamt hópi íslenskra jafnaðarmanna til Bretlands til að fylgjast með kosningunum og læra af Verkamannaflokknum og leiðtoga hans, Keir Starmer. Hún svaraði því til í viðtölum að sigur flokksins væri mikill innblástur fyrir Samfylkinguna. Loksins væri jafnaðarmaður aftur orðinn forsætisráðherra Bretlands. Það væri svo ekki óeðlilegt að það eigi sér stað breytingar á flokki eins og Samfylkingunni, rétt eins og við sáum hjá Verkamannaflokknum í Bretlandi.
Og það er einmitt þetta sem ástæða er til að hafa áhyggjur af. Verkamannaflokkurinn hefur þegar boðað um 8,6 milljarða punda skattahækkun, en það eru um 1.500 milljarðar íslenskra króna. Ef Samfylkingin færi í sambærilegar skattahækkanir hérlendis þýddi það miðað við höfðatölu rúmlega 8,5 milljarða króna skattahækkun á fólk og fyrirtæki.
Við höfum áður heyrt formann Samfylkingarinnar tala um að skattahækkanir á fólk gæti þýtt „einhverja auka þúsundkalla.”
Systurflokkur Samfylkingarinnar í Bretlandi ætlar ekki aðeins að bæta við nýjum sköttum heldur einnig að breyta skattkjörum alþjóðlegra fjárfesta og fyrirtækja. Áður hefur Bretland verið eftirsóttur staður fyrir alþjóðleg stórfyrirtæki og með hóflegum sköttum tókst þeim ekki aðeins að fá þessi fyrirtæki og þau störf sem þau sköpuðu til sín heldur margfölduðu þeir landsframleiðslu sína um leið. Stefna Keir Starmer er sú að fæla hálauna- og efnafólk burt frá Bretlandi með háum sköttum í stað þess að halda þeim og þeirri verðmætasköpun sem þeim fylgir með lágum sköttum. Vinstri menn eiga það sameiginlegt, hvort sem þeir heita Keir Starmer eða Kristrún Frostadóttir, að þau vilja fá mikið af litlu í stað þess að fá lítið af miklu.
Ríkin eiga í samkeppni um fólk og fyrirtæki og íslenskt atvinnulíf er þar ekki undanskilið. Það er atvinnulífið sem skapar verðmætin sem gerir það að verkum að hér ríkir hagsæld og það er okkar sem erum í stjórnmálum að tryggja að hér sé umhverfi sem dregur ekki úr verðmætasköpun. Það er verðmætasköpunin sem tryggir að hér sé til staðar heilbrigðis- og menntakerfi, að hægt sé að tryggja öryggi íbúa og að hægt sé að veita þeim aðstoð sem þurfa á henni að halda.
Of háir skattar draga úr dugnaði, of þungt regluverk hindrar nýsköpun og framsækni og óskilvirkt kerfi hins opinbera dregur úr nýjum tækifærum í atvinnulífinu. Síðasta áratug (2013-2023) hafa skattar á Íslandi lækkað um 95 milljarða, þeir hafa verið hækkaðir 28 sinnum og lækkaðir 63 sinnum. Einstaklingar greiddu 333 milljörðum lægri fjárhæð í tekjuskatt. Uppsöfnuð lækkun skatta og gjalda er um 760 milljarðar króna á föstu verðlagi. Enn erum við þó háskattaland og höfum tækifæri til að gera betur, fara betur með fjármuni og halda áfram að lækka skatta.
Það er ekki hægt að líta framhjá því að það er einnig hliðstæða á milli breskra og íslenskra stjórnmála þegar horft er til kosningaúrslita Íhaldsflokksins og nýlegra skoðanakannana hér á landi þar sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur séð betri tíma. Báðir flokkar standa frammi fyrir áskorunum á borð við lífskjör og innflytjendamál. Það er ljóst að Sjálfstæðisflokkurinn þarf að læra af þessum kosningum í Bretlandi með því að skerpa á lykiláherslum flokksins. Framkvæmdin verður um leið að vera skýr og markviss. Þannig endurheimtum við traust kjósenda og stuðning í næstu kosningum.
Hér á Íslandi hefur okkur tekist að virkja og nýta auðlindir, hugvitið og sköpunarkraftinn í samfélaginu. Þess vegna er Ísland eitt besta land í heimi þegar horft er til lífsgæða. Það skiptir máli á grundvelli hvaða hugmyndafræði ákvarðanir eru teknar. Það hefur áhrif á það hvernig samfélag við byggjum upp og hvort að við náum árangri eða ekki. Stjórnmálamenn geta ekki mætt öllum áskorunum í efnahagsmálum með annarra manna peningum. Það bitnar mest á komandi kynslóðum.
Höfundur er háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra.