Árið 2007 var sögulegt ár hér á landi, þótt fæstir hafi gert sér grein fyrir því á þeim tíma. Góðæri fyrirhrunsáranna var í algleymingi og tíðarandinn slíkur að sjálft ártalið hefur skapað sér sess í málinu sem lýsingarorð. Hagkerfið var á yfirsnúningi og hagur flestra hafði vænkast nokkuð duglega það sem af var öldinni.
En það sem gaf 2007 sinn einstaka sjarma – þótt óraunhæfur hafi verið – var ekki búbót síðustu ára þótt nokkuð rífleg væri, heldur sú botnlausa bjartsýni sem hreiðrað hafði um sig í hjörtum landsmanna um það gull og græna skóga sem koma skyldu.
Vaxandi kaupmáttur og áframhaldandi hækkun fasteignaverðs var gott og blessað, en það sem flestir vonuðust til að myndi bera sig á vit ríkidæmis og vellystinga voru hlutabréf. Það gátu kannski ekki allir fengið ofurlaun bankamanns, en almenningi stóð til boða að taka þátt í rússíbanareiðinni og það gerðu fjölmargir. Smjör draup af hverju strái.
Þegar á hólminn var komið reyndist hin mikla gróðavon hafa verið tálsýn eins og flestir muna, og spilaborgin hrundi. Hlutabréf eru áhættusöm – sér í lagi þegar keypt er í stökum félögum í stað sjóða – og margir töpuðu verulegum fjárhæðum. Brennt barn forðast eldinn, og eftir ævintýralegan vöxt Kauphallarinnar sem þá hafði aðeins verið til í fáeina áratugi snéri almenningur baki við honum. Viðbrögðin voru ef til vill skiljanleg í ljósi aðstæðna, en brotthvarf almennings úr Kauphöllinni næsta áratuginn gerði engum gott.
Að eiga hlutabréf fékk á sig ákveðið yfirstéttaryfirbragð, þar sem þeir einu sem áttu slíkt persónulega – en ekki bara í gegnum lífeyrissjóð eins og almenningur vissulega gerði áfram – voru stóreignafólk. Innan fáeinna ára fór fasteignamarkaðurinn að taka við sér eftir temmilegt högg í hruninu, og þangað fór millistéttin að setja sparnaðinn sinn.
Átakalínur stjórnmálanna tóku miklum breytingum á árunum eftir hrun og átökin sjálf urðu harðneskjulegri. Sumir fóru jafnvel að líta á fyrirtæki almennt sem „auðvaldið“, eða í það minnsta framlengingu þess. Aukin harka færðist í átök á vinnumarkaði, sem segja má að hafi færst áratugi aftur á við. Þjóðarsáttin var gleymd og grafin.
Þingheimur tvístraðist og reyndi svo á þingræðið að eftir stormasamt tímabil var sitjandi ríkisstjórn loks mynduð, ekki um háfleygar hugsjónir, málefnalega samleið eða brýnt samfélagslegt verkefni. Hún var einfaldlega sú eina sem von var til að gæti lifað kjörtímabilið af, og það gerði hún með því að rugga bátnum sem minnst. Áherslan var á stöðugleika umfram framfarir. Aðgerðarleysi umfram þor. Langlundargeð umfram framtíðarsýn.
Erfitt væri að halda því fram að allt hafi þetta fylgt í kjölfar þess að almenningur sagði skilið við Kauphöllina, og líklega eru fæstir hrifnir af hugmyndinni um að endurvekja árið 2007 með öllum þeim öfgum, óvarkárni og ójafnvægi sem þá ríkti.
En endurkoma almennra fjárfesta í Kauphöllina vekur von í brjósti um að sárin séu farin að gróa, og að ef við höldum rétt á spilunum og flýtum okkur hægt í þetta sinn sé möguleiki á að okkur takist að endurvekja lífsgleðina, samheldnina og bjartsýnina sem glataðist með tálsýninni um íslenska efnahagsundrið.
Traustir og góðir innviðir á fjármálamörkuðum eru ekki ókeypis og við erum mun færri en flestar þjóðir til að dreifa byrðunum. En það er til mikils að vinna á fleiri vegu en fjárhagslega með því að ryðja úr vegi þeim hindrunum sem við getum og freista þess að gera Kauphöllina að vettvangi allra landsmanna á ný.