Hrafnarnir flögruðu um málþing sem Betri samgöngur héldu á þriðjudag. Það var kaldhæðnislegt að efnt var til málþingsins í svokölluðum sjálfstæðissal á nýja hótelinu við Alþingisreitinn. Meðal ræðumanna voru Maria Vassilakou, fyrrum varaborgarstjóri í Vínarborg, og Brent Toderian, fyrrum skipulagsstjóri Vancouver sem einnig situr í dómnefnd um skipulag Keldnalandsins.
Það vakti furðu hrafnanna að rauði þráðurinn í erindi þessa fólks var nauðsyn þess að koma millistéttinni í félagslegt húsnæði – það væri í raun forsenda uppbyggingar borgarlínunnar á höfuðborgarsvæðinu. Hrafnarnir efast um að íbúum á suðvesturhorninu hugnist þessi hugmynd og kalt vatn rann milli skins og hörunds þegar embættismenn úr ráðhúsinu klöppuðu fyrir þessum hugmyndum. En þær ríma auðvitað ágætlega við helsta baráttumál Ragnars Þórs Ingólfssonar formanns VR sem er að koma sem flestum í niðurgreitt félagslegt leiguhúsnæði á vegum verkalýðsfélagsins.
Huginn og Muninn er einn af skoðanapistlum Viðskiptablaðsins.