Hrafnarnir sjá að Halldór Kristmannsson fjárfestir hefur náð þeim einstæða árangri að lenda í ritdeilu við sjálfan sig. Skipar hann sér þar með í flokk með mönnum á borð við Þórarin Þórarinsson ritstjóra Tímans og síra Kolbein Þorleifsson og verður það að teljast nokkuð vel af sér vikið.

Fyrir nokkrum vikum lásu hrafnarnir grein Halldórs á vefnum Innherja þar sem hann lýsti yfir mikilli ánægju með ákvörðun stjórnar Sýnar um að hætta við sölu fjölmiðlahluta samsteypunnar. Sem kunnugt er þá hafði verið unnið að slíkri sölu um hríð þar til að hætt var við allt saman.

Halldór á ásamt tengdum aðilum um 4% hlut í Sýn. Hrafnarnir gera ráð fyrir að einn þessara tengdu aðila sé Halldór Kristmannsson fjárfestir sem birtir grein í Morgunblaðinu í dag. Sá Halldór er á öndverðum meiði við hinn Halldórinn og telur að stjórn Sýnar geti margfaldað virði hluthafa í fyrirtækinu með því að selja fjölmiðlahluta félagsins.

Leiða þarf málið til lykta

Hrafnarnir fagna því að fjárfestar ræði opinberlega um stöðu mála í þeim félögum sem þeir hafa tekið stöðu í. Það er gerir markaðnum ekkert nema gott og mættu fleiri taka Halldór sér til fyrirmyndar – þá báða. En til þess að leiða málið til lykta leggja hrafnarnir til að Halldór Kristmannsson birti grein í Viðskiptablaðinu í næstu viku.

Huginn og Muninn er einn af föstum ritstjórnardálkum Viðskiptablaðsins.

Höfuðstöðvar Sýnar.
© Haraldur Guðjónsson (VB MYND/hag)