Steingrímur Hermannsson heitinn lét eitt sinn þau orð falla að hefðbundin efnahagslögmál framboðs og eftirspurnar giltu ekki á Íslandi. Þetta er merkileg fullyrðing manns sem gegndi bæði stöðu forsætisráðherra og seðlabankastjóra og hún endurspeglar hugsun sem er furðu lífseig hér á landi.

Eigi að síður kemur það á óvart að Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, skuli af öllum mönnum enduróma þessa hugsun. Það gerði hann í síðustu viku þegar hann sagði í samtali við Morgunblaðið að það væri ekki verkefni ríkisstjórnarinnar að koma böndum á verðbólguna heldur væri það alfarið í höndum Seðlabankans.

Það er ekki sérlega álitlegt ef fjármálaráðherra trúir virkilega því að ríkisfjármálin hafi engin áhrif á verðlagsþróun. Staðreynd málsins er sú að stjórn ríkisfjármála hefur mikil áhrif á verðlag og að stanslaus útgjaldaaukning ríkissjóðs frá árinu 2017 hefur gert það að verkum að verðbólga er nú meiri en ella og vextir hærri.

Frá því að ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra tók við völdum veturinn 2017 hafa útgjöld ríkissjóðs aukist um 433 milljarða króna. Ríkissjóður hefur verið rekinn viðstöðulaust með halla frá árinu 2019 og ekki er útlit fyrir að það breytist á næstu árum. Reyndar telur fjármálaráðherra að jafnvægi geti komist á fjárlög árið 2025 en þær áætlanir fela ekki í sér að minni slagkraftur í hagkerfinu vegna vaxtahækkana Seðlabankans hafi mikil áhrif á skattheimtu ríkisstjórnarinnar.

Það liggur í augum uppi að þessi gríðarlega útgjaldaaukning ríkisstjórnarinnar á undanförnum árum hefur kynt undir verðbólgunni. Þrátt fyrir að stundum sé talað um að útgjaldaaukningin hafi verið tímabundin í heimsfaraldrinum er ekkert sem rennur stoðum undir þá skoðun. Gjöld ríkissjóðs hafa þannig hækkað að meðaltali um tæplega 9% á ári frá árinu 2018.

Á sama tíma hefur skattheimta ríkissjóðs aukist um 200 milljarða króna frá árinu 2017. Þá námu skatttekjur ríkissjóðs um 630 milljörðum króna en var um 800 milljarðar í fyrra. Þetta er fé sem ríkissjóður sogar til sín frá einstaklingum og lögaðilum og rennur í ríkisútgjöld. Vaxtahækkanir Seðlabankans hefðu vafalaust leitt til þess að hluti hans hefði runnið í sparnað í stað ríkisútgjalda hefðu eigendurnir fengið að halda honum.

Viðvarandi útgjaldaaukning ríkissjóðs á undanförnum árum er ekki sjálfbær. Það er löngu orðið tímabært að stjórnvöld geri sér grein fyrir þessari staðreynd og fari að sýna aðhald og ábyrgð. Fyrr förum við ekki að sjá verulegan árangur í baráttunni fyrir stöðugu verðlagi.

Fjármálaráðherra gerði heiðarlega tilraun til að grafa undan trúverðugleika forsvarsmanna Seðlabankans á sama tíma og hann kynnti aðhaldsaðgerðir ríkissjóðs í síðustu viku. Þegar horft er eftir vísbendingum á fjármálamarkaði sést ekki að Seðlabankann skorti trúverðugleika. Markaðurinn hefur fulla trú á því að bankinn hækki vexti enn frekar til að koma böndum á verðbólguna. Það sést á þróun verðbólguvæntinga. Hins vegar má leiða líkum að því að markaðurinn hafi efasemdir um að ríkisfjármálum verði stýrt af þeirri ábyrgð sem er nauðsynleg til að ná fram auknum verðstöðugleika.

Fjármálaráðherra hyggst einungis spara sautján milljarða í ríkisrekstrinum á næsta ári. Á sama tíma boða aðrir ráðherrar í ríkisstjórninni stofnun þjóðaróperu og byggingu allra handa þjóðarhalla svo einhver dæmi séu tekin. Hætt er við því að verðbólguvæntingar verði háar til lengri tíma eða þar til markaðurinn öðlast trú að stjórnvöldum sé alvara í að koma böndum á ríkisfjármálin. Trúverðug aðhaldsstefna ásamt ábyrgð og skynsemi í næstu kjaraviðræðum er lykillinn að verðstöðugleika og lægri vöxtum.