Stríð í Evrópu skapar efnahagslega erfiðleika um alla álfuna og má gera ráð fyrir að Íslendingar muni senn finna fyrir þeim af meiri þunga.

Til lengri tíma litið er staða Íslands sterk og fjölmörg tækifæri til að styrkja hana enn frekar – þau kalla á skýra stefnumótun og samstöðu.

Á árinu 2022 urðu mestu umskipti í Evrópu í yfir þrjátíu ár þegar Rússar réðust inn í Ukraínu og stríð skall á. Einræðisherra í Rússlandi skrúfaði fyrir gasleiðslur til lýðræðisríkjanna í Evrópu þar sem nú ríkir orkuskortur og hagur heimila og framleiðslufyrirtækja hnignar hratt.

Verðbólga hefur rokið af stað og vextir hækkað. Evran hefur veikst og verðmæti eigna hefur rýrnað. Staða Evrópu veikist á meðan Bandaríkin og Kína sækja í sig veðrið.

Áhrifa gætir sömuleiðis í Bandaríkjunum og eru fjármálamarkaðir viðkvæmastir en hefðbundið eignasafn skráðra bandarískra hluta- og skuldabréfa í helmingshlutföllum hefur á þessu ári tapað meiri verðmætum en nokkru sinni frá kreppunni 1932. Staðan þar er þó önnur þar sem Bandaríkin eru sjálfum sér nóg og síður háð milliríkjaviðskiptum en Evrópa.

Einstök staða Íslands

Staða Íslands er í alla staði athyglisverð. Við erum fjarri vígaslóð, mitt á milli Evrópu og Norður-Ameríku, innan NATO en utan ESB og með aðild að mörkuðum Evrópu í gegnum EES.

Þar að auki stöndum við í dyragátt Norðurslóða þar sem finna má lausnir á aðkallandi áskorunum í Evrópu á sviði grænnar orku, sjálfbærrar og öruggrar fæðuöflunar og aðgengi að sjaldgæfum en mikilvægum málmum. Okkar græna orkuframleiðsla hefur varið heimilin og fyrirtækin í landinu fyrir fyrstu áhrifum stríðsins í Evrópu eins og margföld hækkun á orkuverði.

Sterk staða útflutnings og ríkissjóðs

Við Íslendingar njótum sérstöðu sökum þess hversu farsællega við unnum úr fjármálakreppunni árið 2008 með stöðuleikasamningum árið 2016. Stjórnvöld hafa síðan haldið aftur af skuldum ríkissjóðs en þær eru minni en þekkist í Evrópu og þá hefur Seðlabankinn safnað öflugum gjaldeyrisforða. Þannig glímum við betur við verðbólgu og gjaldeyrissveiflur um leið og við spyrnum við fótum eftir heimsfaraldurinn.

Útflutningsgreinar okkar standa vel. Sjávarútvegur er öflugur og ferðaþjónustan er að ná fyrri styrk. Fjórða stoðin í okkar útflutningi, þekkingargreinarnar, vex af miklum þrótti en þar skapa fyrirtæki yfir 15% af gjaldeyristekjum þjóðarinnar. Hagvöxtur á árinu stefnir í yfir 7% og verður hann meiri en annars staðar í Evrópu og spáin fyrir næsta ár gerir ráð fyrir áframhaldandi vexti.

Blikur á lofti

En blikur eru á lofti. Verðbólga er há og vextir sömuleiðis. Kostnaðarhækkanir erlendis skila sér til landsins og fjármagnskostnaður eykst. Efnahagsraunir í nágranna- og viðskiptaríkjum okkar munu skila sér í minni eftirspurn eftir okkar útflutningsvörum og þjónustu. Kostnaður banka um allan heim hefur aukist og hér finnum við fyrir ókostum smæðarinnar. Aukið framboð af skuldabréfum bitnar á litlum útgefendum frá fámennum þjóðum því seljanleiki þeirra bréfa er lítill.

Við aðstæður eins og nú er óhjákvæmilegt að þrátt fyrir að íslenskir bankar búi að miklu eigin fé og séu vel reknir þá eykst kostnaður við fjármögnun þeirra. Til skamms tíma er rétt að búast við verulegum áskorunum. Vonandi leysast kjarasamningar farsællega og sem flestir njóti verðmætasköpunarinnar í samfélaginu.

Hættan er að viðkvæm staða okkar vegna smæðar efnahags og gjaldmiðils og mikillar uppsafnaðrar eftirspurnar innanlands verði til þess að verðbólga éti upp fyrirsjáanlega verðmætasköpun. Ef horft er til næsta árs er það raunhæft markmið að halda í horfinu. Það yrði góður árangur.

Ný staða – ný tækifæri

Staða Íslands færir okkur hins vegar tækifæri til vaxtar. Útflutningsgreinar okkar munu áfram vera vettvangur nýsköpunar. Orkuskiptin munu strax á næsta ári setja svip sinn á okkar atvinnulíf en hér á landi eru skilyrði til forystu við þróun lausna á því sviði.

Þörf Evrópu á að reiða sig á eigin auðlindir við iðnframleiðslu eykur mikilvægi norðurslóða og þar geta Íslendingar í góðri samvinnu við Grænlendinga og Færeyinga gegnt mikilvægu og verðmætu hlutverki á sviði samgangna, flutninga, verslunar, rannsókna, fjármála, heilsugæslu og öryggismála svo dæmi séu tekin.

Samstöðu þarf og skýra stefnumótun til að nýta tækifæri framtíðar. Þegar stríð geisa, faraldrar herja og kreppur dynja blasir við hvað lítil þjóð eins og Ísland er í senn umkomulaus og viðkvæm en á sama tíma sterk þegar á reynir. Nú er sá tími.

Takist okkur að snúa bökum saman munu verkefnin sem okkar bíða áfram leggja grunninn að öflugu og nútímalegu velferðar- og þekkingarsamfélagi.

Þessi pistill birtist fyrst í tímaritinu Áramót þann 29. desember.