Jón Gnarr er kominn frá Houston í Texas. Sjálfur sagði Jón að þetta yrði athyglisvert ævintýri þegar hann fór utan, en úti er ævintýri eftir 6 mánuði, sem er auðvitað athyglisvert.

* * *

Jón hefur ráðið sig til vinnu hjá Jóni Ásgeiri Jóhannssyni á 365. Jónarnir eru án efa ánægðir með ráðahaginn, enda er Jón Gnarr lunkinn þáttagerðarmaður.

* * *

Lengi vel eftir að Ólafur Ragnar Grímsson var kjörinn forseti var Jón Ásgeir aufúsugestur á Bessastöðum. Upp á vinskapinn slettist hins vegar eftir hrun, þegar Ólafur Ragnar stóð í hárinu á Steingrími J. og Jóhönnu í Icesave-málinu og sneri baki við útrásarvíkingunum.

* * *

Jón Gnarr hefur gefið úr og í hvort hann hyggist bjóða sig fram til forseta. Týr telur hins vegar líklegt að Jón Gnarr fari fram. Með ráðningunni hefur Jón Ásgeir myndað tengsl við Jón Gnarr sem yrðu honum mikilvæg og dýrmæt ef Gnarr myndi vinna kosningar.

* * *

Samkvæmt nýjustu könnun Ríkisútvarpsins vilja 11% kjósenda Ólaf Ragnar en 21% Jón Gnarr og staðan virðist því nokkuð góð. Týr ætlar að benda Jónunum á að í síðustu kosningum sneri Ólafur Ragnar töpuðu spili sér í vil á síðustu metrunum.

* * *

Því sé rétt að fara varlega í að skrifa nýtt handrit að forsetavaktinni.