Það vakti athygli mína þegar Egill Helgason, einn af helstu samfélagsgreinendum þjóðarinnar, spurði hvað heimurinn myndi segja um Ísland ef ríkisstjórnin félli á hvalveiðum. Verðum við ekki eins og viðundur?
Þetta er út af fyrir sig áhugaverð spurning en röng á svo marga vegu.
Staðreyndin er nefnilega sú að ef þessi stjórn fellur þá gerist það ekki vegna hvalveiða heldur misbeitingar valds. Það gerist vegna þess að ráðherra fylgir ekki þeim lögum sem hafa verið sett og grundvallarréttindum stjórnarskrár um vernd eignarréttar og atvinnufrelsi. Svo ekki sé minnst á smáatriði eins og meðalhóf, andmælarétt og rannsóknarskyldu ráðherra, sem hvert og eitt hefði átt að vera nóg til að koma í veg fyrir ákvörðun matvælaráðherra um tímabundið bann við hvalveiðum síðastliðið sumar.
Það var reyndar engin leið til að koma í veg fyrir þessa ákvörðun vegna þess að hún fór hvorki í gegnum ríkisstjórn né var hún rædd á Alþingi. Hún var einfaldlega ákvörðun ráðherra, þrátt fyrir varnaðarorð sérfræðinga í hennar eigin ráðuneyti.
Kannski er skiljanlegt að einhverjir átti sig ekki á því hversu alvarlegt þetta er. Ekki síst í ljósi þess að við höfum með árunum fjarlægst grunnatvinnugreinar, framleiðslu og sköpun verðmætra gjaldeyristekna. En þá er kannski hægt að stilla þessu upp á annan hátt.
Ef við ætlum að fara að brjóta á þegnum okkar á grundvelli þess hvernig okkur líður eða hvað okkur finnst, þá er voðinn vís.
Segjum sem svo að menntamálaráðherra sé þeirrar skoðunar að tiltekinn fjölmiðill á Íslandi hafi ekki gætt nógu vel að jafnræði og hlutleysi. Þar séu heldur ekki jöfn hlutföll kynja og gott ef það hefur ekki líka borið á upplýsingaóreiðu. Væri þá ekki bara eðlilegt að ráðherra myndi hreinlega banna þennan fjölmiðil? Og það jafnvel þó að Fjölmiðlanefnd (þessi eina sanna) hefði komist að þeirri niðurstöðu að hlutaðeigandi fjölmiðill hefði engin lög brotið í starfsemi sinni?
Við hljótum að sjá að slík rök halda ekki. Ekki frekar en rökin að lög um hvalveiðar séu gömul lög og jafnvel úrelt að mati ráðherra. Það eru reyndar sérstaklega óheppileg ummæli, sem benda til þess að ráðherra telji það sér í sjálfsvald sett hvaða lögum hún fylgi.
Við gætum reynt að ímynda okkur hvernig við tækjum því ef fyrirtæki myndi detta slík röksemdafærsla í hug. Það væri óþarfi að fylgja lögum því þau væru nú barn síns tíma og ýmislegt hefði nú breyst.
Fyrirtæki geta ekki breytt lögum. Og ráðherrar geta ekki breytt lögum. Til þess höfum við Alþingi. Lög eru nefnilega grundvallaratriði í samfélagi okkar. Þau er sett á lýðræðislega kjörnu þingi og verður ekki breytt nema meirihluti þingsins fallist á slíkt. Ef við ætlum að fara að brjóta á þegnum okkar á grundvelli þess hvernig okkur líður eða hvað okkur finnst, þá er voðinn vís. Það samræmist ekki reglum réttarríkis.
Þannig að ef ríkisstjórnin fellur, og einhverjir útlendingar þurfa endilega að fá að vita hjá Agli Helgasyni af hverju stjórnin sprakk, þá getur hann sagt þeim frá því að það hafi jú allt gerst vegna þess að matvælaráðherra hafi fyrirvaralaust svipt fólk og fyrirtæki lífsviðurværi og með því brotið gegn grundvallarréttindum, sem varin eru af stjórnarskrá, og stjórnskipulegu meðalhófi.
Þeir hljóta að skilja það.