Í Viðskiptablaðinu sem kom út í gær fjallaði Óðinn nánar um innflytjendur og byggir áfram á gögnum frá dönsku hagstofunni og fjármálaráðuneytinu danska, rétt eins og í síðustu viku.

Þar er sérstaklega horft til þeirra upprunalanda þeirra sem flytja til Íslands eða sækja hér um hæli.

Dönsku gögnin ná meðal annars til Pólverja, Rúmena, Litháa, sum til Letta, Sýrlendinga og upprunalandsins Líbanon, en stór hluti þeirra sem eru skráðir eru þaðan eru Palestínumenn. Áskrifendur geta lesið umfjöllunina hér í heild.

Íslensk stjórnvöld hafa ekki opinberað tölur um hvernig innflytjendum reiðir af á Íslandi eftir upprunalandi.

Pólverjar fjölmennastir í báðum löndum

Pólverjar eru fjölmennasti hópur innflytjenda í Danmörku, rétt eins og á Íslandi. Þeir voru 6,7% allra innflytjenda í Danmörku í ársbyrjun 2023, tæplega 50 þúsund, en 32,3% allra innflytjenda á Íslandi.

Þegar tölurnar dönsku tölurnar eru skoðaðar sést að Pólverjar hafa aðlagast dönsku samfélagi vel.

Palestínumenn einnig margir

Palestínumenn eru einnig fjölmennur hópur í Danmörku. Er áætlað að 15-20 þúsund Palestínumenn búi í Danmörku.

Þeir eru flestir skráðir með upprunalandið Líbanon þar sem Danir viðurkenna ekki ríki Palestínu.

Undanfarið hefur verið mikið fjallað um um hælisleitendur frá Palestínu í kjölfar árásar hryðjuverkasamtakanna Hamas inn í Ísrael þann 7. október og innrásar ísraelska hersins inn á Gaza 20 dögum síðar.

Himinn og haf á milli

Þegar Pólverjar og Palestínumenn Í Danmörku eru bornir saman má segja að það sé himinn og haf á milli þeirra. Aðeins 10% pólskra karlmanna á aldrinum 30-59 árið 2021 þáðu bætur frá hinu opinbera. Hins vegar þáðu 51% þeirra sem eru frá Líbanon/Palestínu.

Þegar atvinnuþátttaka bæði karla og kvenna er skoðuð árið 2021 sést að 79% Pólverja eru starfandi en 43% Líbana/Palestínumanna.

Glæpatíðni meðal Pólverja er rétt undir meðaltalinu samkvæmt vísitölu dönsku hagstofunnar. Pólskir innflytjendur eru með 99 stig en afkomendur með 116 stig. Líbanar/Palestínumenn eru hins vegar með 281 stig en afkomendur þeirra með 370. Palestínumenn brjóta því um þrisvar sinnum oftar af sér en Pólverjar.

Í öllum þessum þremur flokkum koma Líbanir/Palestínumenn verst út af öllum þjóðum í Danmörku en Pólverjar koma svipað út og þeir sem eru danskir að uppruna.

Óðinn birtist í Viðskiptablaðinu sem kom út á miðvikudaginn. Áskrifendur geta lestið umfjöllunina í heild hér.