Heilbrigðisráðherra og fjármála- og efnahagsráðherra kynntu nýlega áform um nýtt kerfi í kringum húsnæðismál hjúkrunarheimila. Boðað er að sérhæfðir aðilar í rekstri húsnæðis komi í auknum mæli að byggingu og rekstri húsnæðis hjúkrunarheimila. Þeir aðilar geta bæði verið þau fyrirtæki, sjálfseignarstofnanir og samtök sem í dag reka húsnæði hjúkrunarheimili, og önnur fyrirtæki sem sérhæfa sig í byggingu og reksturs húsnæðis.

Í umræðunni hefur komið fram gagnrýni á þessi áform, að með þessu sé verið að einkavæða öldrunarmálin. Að okkar mati byggir þessi gagnrýni mikið til á misskilningi á bæði breytingunum sem boðaðar eru og svo sögu öldrunarmála á Íslandi. Í dag er það nefnilega þannig að öldrunarþjónusta á Íslandi er einmitt að mestu leyti borin uppi af aðilum öðrum en ríkinu: Sérhæfðum fyrirtækjum, sjálfseignarstofnunum og samtökum. Ríkið tryggir svo að sú þjónusta uppfylli öll markmið um gæði og rekstur með þjónustusamningum, kröfulýsingum, lögum og reglugerðum.

Hvernig gengur?

Embætti Landlæknis hóf nýlega að birta gæðavísa hjúkrunarheimili, sem eru mælingar hins opinbera á gæðum hjúkrunarþjónustunnar. Þar er áhugavert að bera saman hvernig gengur að halda uppi gæðum á hjúkrunarheimilum sem eru hluti af stórum heilbrigðisstofnunum ríkisins, og svo þeim sem rekin eru af öðrum. Niðurstaðan þarna er einmitt sú að það gæði eru meiri hjá þessum sérhæfðu einkaaðilum.

Hvað með kostnaðinn?

Á síðustu árum hafa ekki verið reist mörg hjúkrunarheimili en ef skoðuð eru nýjustu 2 stóru hjúkrunarheimilin þá er það þannig að eitt þeirra var reist af sjálfseignarstofnun og hitt af ríkinu. Þar sjáum við að byggingarkostnaður m.v. fjölda hjúkrunarrúma er mun hærri hjá ríkinu, sem og rekstrarkostnaður.

Það leiðir okkur svo að spurningunni um hver ætlar að standa fyrir byggingu nýrra hjúkrunarheimila. Hver ætlar að standa undir fjárfestingu undir eitt hjúkrunarheimili árlega næstu fimmtán árin fyrir 1.600 aldraða sem þurfa sólarhringshjúkrunarþjónustu?

Á hið opinbera að binda fjármagn í fasteignum undir heilbrigðisþjónustu fyrir yfir 100 milljarða til 2040? Er réttlátt að sveitarfélög fjármagni 15% af kostnaði við byggingu hjúkrunarheimila sem kostar að meðaltali fimm milljarða þegar heilbrigðisþjónusta er fjármögnuð af ríkinu? Hefur uppbygging hjúkrunarrýma verið í takt við þarfir aldraðra? Og finnst okkur ásættanlegt að aldraður einstaklingur bíður í 4-5 mánuði eftir að komast í skjól á hjúkrunarheimili í dag, jafnvel á Landspítalanum eða biðrýmisplássi langt frá fjölskyldunni?

Þessar staðreyndir eru sláandi en sem betur fer hefur hið opinbera áttað sig á þessari alvarlegri stöðu og kallað til fleiri hendur í uppbyggingu í heilbrigðisþjónustu með því að gefa út nýja stefnu þar sem verður leitað tilboða í byggingu fasteigna undir hjúkrunarheimila. Ef raunveruleikinn er sá að þjónustuþegarnir – aldraðir íbúar landsins – fá betri þjónustu fyrir minni tilkostnað fyrir ríkið, þá hlýtur það að vera jákvætt!

Aldurspýramídinn að snúast við

Nú blasir við að fjöldi 80 ára og eldri muni tvöfaldast til 2040 og þarfir þeirra breytist. Það stefnir í að aldurspýramídinn snúist við yfir í kebab sem þýðir að það verða hlutfallslegra færri skattgreiðendur á meðan aldurshópnum 80 og eldri fjölgar gríðarlega og þótt lýðheilsa þeirra hafi batnað almennt, þá vex þörf fyrir dýrari úrræði heilbrigðisþjónustu og félagslegrar þjónustu eftir því sem aldur eykst.

Það er ekki bara ein tegund þjónustu af þjónustu sem hentar þessum hóp. Þeirra hagsmunum er best borgið með hið opinbera sem þjónustukaupanda að leita að hagstæðustu þjónustunni fyrir skattpeningana, aðlaðandi rekstrarumhverfið fyrir rekstraraðila og tryggð gæði með samningum, lögum og reglugerðum.

Halla er forstjóri Sóltúns heilbrigðisþjónustu og Sigurjón er framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu.