Týr ætlar að hafa sem fæst orð um aðdraganda þess að Bjarni Benediktsson sagði af sér sem fjármálaráðherra í gær. Þess í stað telur hann brýnt að horfa fram á veginn.

Það skiptir miklu máli hver sest í stól Bjarna í fjármálaráðuneytinu á næstu dögum enda eru verkefnin ærin. Nú eru fjárlögin komin í hendur þingsins. Seðlabankinn hefur lýst því yfir að fjárlögin eins og þau komu frá ráðuneytinu séu „hlutlaus“ þegar kemur að baráttunni fyrir verðstöðugleika. Það er að segja þau breyti í núverandi mynd litlu til eða frá um hvort bönd komist á verðbólguna.

En eins og flestir vita taka fjárlög yfirleitt miklum breytingum í meðförum þingsins. Þrátt fyrir útgjaldaaustrið í fjárlagafrumvarpi þessa árs tókst þinginu að auka útgjöldin enn frekar um tugi milljarða áður en það var samþykkt fyrir síðustu áramót.

Þingið verður að sýna gott fordæmi

Fjárlaganefnd hefur nú þegar borist á sjötta tug umsagna. Þau snúast flest um að óska eftir meiri fjárframlögum frá ríkinu til alls milli himins og jarðar. Milljarður hér og milljarður þar og allt í einu er fjárlagahallinn orðinn ógnarstór. Þetta er saga undanfarinna ára. Týr minnir á að frá því að ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra tók við völdum veturinn 2017 hafa útgjöld ríkissjóðs aukist um 433 milljarða króna. Ríkissjóður hefur verið rekinn viðstöðulaust með halla frá árinu 2019 og ekki er útlit fyrir að það breytist á næstu árum. Gjöld ríkissjóðs hafa þannig hækkað að meðaltali um tæplega 9% á ári frá árinu 2018.

Týr veit ekki hvort Stefán Vagn Stefánsson þingmaður Framsóknarflokksins og formaður fjárlaganefndar sé manna líklegastur til þess að standa fast á sínu og sjá til þess að þingið auki ekki útgjöld fjárlaganna enn frekar. Honum veitir að minnsta kosti ekki að hafa bandamenn í fjármálaráðherra sem skilur hvað er í húfi.

Ábyrg meðferð þingsins á fjárlagafrumvarpinu myndi enn fremur senda skýr skilaboð til aðila vinnumarkaðarins sem eru í þann mund að hefja viðræður um kjarasamninga sem renna út um áramótin.

Þarf að binda miðjuna saman

Í framhaldinu gæti svo nýr fjármálaráðherra lagt mark sitt á fjárlagafrumvarp næsta árs. Týr telur engar líkur á að Sjálfstæðisflokkur endurheimti styrk sinn í skoðanakönnunum nema að ríkisstjórnin axli sína ábyrgð í baráttunni gegn verðbólgu með þeim árangri að vextir lækki. Það mun ekki gerast nema með aðhaldi og ráðdeild og því skiptir miklu máli hver verður næsti fjármálaráðherra. Liðið þarf virkilega á því að halda að manni sem virkilega bindur miðjuna saman sé skipt inn á.

Mikilvægi Þórdísar Kolbrúnar

Týr hefur enga hugmynd um hver það verður. En hann las í Morgunblaðinu í morgun að Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir varaformaður Sjálfstæðisflokksins og utanríkisráðherra hafi takmarkaðan áhuga á stólaskiptum. Ástæðan fyrir því að hún er treg til er „vegna mikilvægra og viðkvæmra verkefna á alþjóðavettvangi“, eins og það er orðað í frétt blaðsins.

Sökum fyrri starfa er Týr ágætlega upplýstur um þær harmsögur og hildarleiki sem leiknir eru á alþjóðasviðinu. En hann vildi gjarnan fræðast frekar um hverjir þeirra séu svo mikilvægir og viðkvæmir að þeir kalli á persónulega aðkomu Þórdísar Kolbrúnar. En það er önnur saga.

Týr er einn af föstum ritstjórnardálkum Viðskiptablaðsins.

Týr ætlar að hafa sem fæst orð um aðdraganda þess að Bjarni Benediktsson sagði af sér sem fjármálaráðherra í gær. Þess í stað telur hann brýnt að horfa fram á veginn.

Það skiptir miklu máli hver sest í stól Bjarna í fjármálaráðuneytinu á næstu dögum enda eru verkefnin ærin. Nú eru fjárlögin komin í hendur þingsins. Seðlabankinn hefur lýst því yfir að fjárlögin eins og þau komu frá ráðuneytinu séu „hlutlaus“ þegar kemur að baráttunni fyrir verðstöðugleika. Það er að segja þau breyti í núverandi mynd litlu til eða frá um hvort bönd komist á verðbólguna.

En eins og flestir vita taka fjárlög yfirleitt miklum breytingum í meðförum þingsins. Þrátt fyrir útgjaldaaustrið í fjárlagafrumvarpi þessa árs tókst þinginu að auka útgjöldin enn frekar um tugi milljarða áður en það var samþykkt fyrir síðustu áramót.

Þingið verður að sýna gott fordæmi

Fjárlaganefnd hefur nú þegar borist á sjötta tug umsagna. Þau snúast flest um að óska eftir meiri fjárframlögum frá ríkinu til alls milli himins og jarðar. Milljarður hér og milljarður þar og allt í einu er fjárlagahallinn orðinn ógnarstór. Þetta er saga undanfarinna ára. Týr minnir á að frá því að ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra tók við völdum veturinn 2017 hafa útgjöld ríkissjóðs aukist um 433 milljarða króna. Ríkissjóður hefur verið rekinn viðstöðulaust með halla frá árinu 2019 og ekki er útlit fyrir að það breytist á næstu árum. Gjöld ríkissjóðs hafa þannig hækkað að meðaltali um tæplega 9% á ári frá árinu 2018.

Týr veit ekki hvort Stefán Vagn Stefánsson þingmaður Framsóknarflokksins og formaður fjárlaganefndar sé manna líklegastur til þess að standa fast á sínu og sjá til þess að þingið auki ekki útgjöld fjárlaganna enn frekar. Honum veitir að minnsta kosti ekki að hafa bandamenn í fjármálaráðherra sem skilur hvað er í húfi.

Ábyrg meðferð þingsins á fjárlagafrumvarpinu myndi enn fremur senda skýr skilaboð til aðila vinnumarkaðarins sem eru í þann mund að hefja viðræður um kjarasamninga sem renna út um áramótin.

Þarf að binda miðjuna saman

Í framhaldinu gæti svo nýr fjármálaráðherra lagt mark sitt á fjárlagafrumvarp næsta árs. Týr telur engar líkur á að Sjálfstæðisflokkur endurheimti styrk sinn í skoðanakönnunum nema að ríkisstjórnin axli sína ábyrgð í baráttunni gegn verðbólgu með þeim árangri að vextir lækki. Það mun ekki gerast nema með aðhaldi og ráðdeild og því skiptir miklu máli hver verður næsti fjármálaráðherra. Liðið þarf virkilega á því að halda að manni sem virkilega bindur miðjuna saman sé skipt inn á.

Mikilvægi Þórdísar Kolbrúnar

Týr hefur enga hugmynd um hver það verður. En hann las í Morgunblaðinu í morgun að Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir varaformaður Sjálfstæðisflokksins og utanríkisráðherra hafi takmarkaðan áhuga á stólaskiptum. Ástæðan fyrir því að hún er treg til er „vegna mikilvægra og viðkvæmra verkefna á alþjóðavettvangi“, eins og það er orðað í frétt blaðsins.

Sökum fyrri starfa er Týr ágætlega upplýstur um þær harmsögur og hildarleiki sem leiknir eru á alþjóðasviðinu. En hann vildi gjarnan fræðast frekar um hverjir þeirra séu svo mikilvægir og viðkvæmir að þeir kalli á persónulega aðkomu Þórdísar Kolbrúnar. En það er önnur saga.

Týr er einn af föstum ritstjórnardálkum Viðskiptablaðsins.