Hugmyndafræðilegur glundroði ríkir í Samfylkingunni. Ástæðan er sú að Kristrún Frostadóttir, formaður flokksins, hefur kúvent stefnu hans í innflytjendamálum.
Það gerði hún fyrst í hlaðvarpsþættinum Ein pæling. Í þættinum sagði hún í grunninn að íslenska hælisleitendakerfið væri ósjálfbært og á skjön við kerfi hinna Norðurlandanna.
Um rekstur velferðarkerfisins í þessu samhengi sagði Kristrún: „Auðvitað byggir það á því að þú ert með landamæri. Eðli málsins samkvæmt. Ef þú ætlar að reka velferðarsamfélag þá þarftu að vera með lokað kerfi að því leytinu til.
Það þýðir ekki að þú sért ekki með svigrúm til að taka á móti fólki en þú verður að gera það eftir ákveðnu kerfi. Og eins og ég segi, við hljótum, sem jafnaðarmannaflokkur, að vilja halda í ákveðin gildi í okkar samfélagi.“
Samfylkingin er nú komin á svipaða línu og systurflokkur hans í Danmörku undir forystu Mette Fredriksen. Danski Jafnaðarmannaflokkurinn vann sigur í kosningunum 2019 og var ástæðan ekki síst talin sú að hann tók að einhverju leyti upp afstöðu danska Þjóðarflokksins í innflytjendamálum. Ef við færum þetta yfir á Ísland þá má segja að Samfylkingin hafi nú að einverju leyti tekið upp stefnu Miðflokksins í innflytjendamálum.
Það hefur verið grátbroslegt að fylgjast með viðbrögðum flokksfélaga Kristrúnar, sem mótmæla því margir að í orðum hennar hafi falist einhvers konar stefnubreyting. Skömmu eftir að ummælin féllu komu fyrrverandi formenn flokksins í röðum með pólitískar greiningar á þeim, svona eins og hinn almenni kjósandi, og þá kannski helst kjósendur Samfylkingarinnar, væru ófær um að draga sínar ályktanir.
Það merkilega við þessi ummæli er að líklega verður þetta einnig veruleiki Samfylkingarinnar í næstu þingkosningum.
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir og Össur Skarphéðinsson hafa komið Kristrúnu til varnar og lagt áherslu á að ummæli hennar séu ekki á skjön við stefnu flokksins. Oddný G. Harðardóttir tók í sama streng og sagði flokkinn ekki hafa breytt um stefnu enda væri slíkt aðeins gert á landsfundi. Þetta er auðvitað þvæla.
Logi Einarsson, fyrrverandi formaður flokksins, sagði ekki um neina grundvallarstefnubreytingu að ræða heldur væri Kristrún að benda á að sá nýi veruleiki sem við byggjum við kallaði á nýja nálgun. Þetta er líklega það sama og Mette Fredriksen hugsaði fyrir fimm árum.
Það má alveg rifja upp ummæli Loga eftir kosningasigur Metta árið 2019 en þá sagði hann: „Ég ætla ekkert að leyna því að mér finnst jafnaðarmannaflokkurinn í Danmörku hafa tekið ranga beygju í tilraun sinni, sem kannski heppnaðist að einhverju leyti, til að vinna inn atkvæði. Þau eru að fá einhver atkvæði aftur frá danska þjóðarflokknum. En mér sýnist þau hafa misst einnig atkvæði yfir til flokka á vinstri vængnum.” Það merkilega við þessi ummæli er að líklega verður þetta einnig veruleiki Samfylkingarinnar í næstu þingkosningum.
Sama hvað þessir fjórir fyrrum formenn segja þá sér auðvitað allt vitiborið fólk í gegnum moðreykinn.
En nú snýr formaður Samfylkingarinnar blaðinu við og segir efnislega að ekki hafi verið nægjanlega hert. Og það er í öllum skilningi málsins veruleg stefnubreyting.
Eiríkur Bergmann, prófessor í stjórnmálafræði, féll ekki í sömu gryfju og gömlu formennirnir þegar hann tjáði sig um ummæli Kristrúnar. Það er ágætt að halda því til haga að Eiríkur þekkir Samfylkinguna betur en margir og sat m.a. á lista hans í þingkosningum hér áður.
Eiríkur sagði verulega stefnubreytingu hafa átt sér stað í Samfylkingunni eftir að Kristrún viðraði skoðanir sínar í innflytjendamálum.
Í viðtali í fréttatíma Stöðvar 2 sagði hann: „Samfylkingin var sá flokkur sem barðist hvað harðast gegn ítrekaðri herðingu innflytjendalöggjafarinnar, sem hefur verið hert í allnokkrum skrefum undanfarin ár. En nú snýr formaður Samfylkingarinnar blaðinu við og segir efnislega að ekki hafi verið nægjanlega hert. Og það er í öllum skilningi málsins veruleg stefnubreyting.”
Viðskiptablaðið fagnar aukinni umræðu um innflytjendamál hér á landi. Undanfarna áratugi hefur þessi umræða einkennst af barnslegri einlægni og ef til vill einfeldni. Ástæðan er auðvitað sú að þjóðin hefur verið afar einsleit og ekki þurft að glíma við stór vandamál í málaflokknum.
Nú þegar innflytjendamálin eru kyrfilega komin á dagskrá þarf umræðan að fara fram á raunsæjan og öfgalausan hátt. Mannúðarsjónarmiðin verða að vera forgrunni en í því sambandi er ágætt að hafa í huga að þau hverfast ekki einungis um innflytjendur. Þeir sem benda á staðreyndir í innflytjendamálum mega ekki verða úthrópaðir sem rasistar því ekki einungis gjaldfellir það hugtakið heldur líka umræðuna sjálfa. Það er kannski barnsleg einfeldni að halda að umræðan geti verið á þessum nótum en sjáum til.