Sjávarútvegur er ein elsta atvinnugrein íslendinga og höfum við í gegnum tímana öðlast einstaka fagþekkingu á veiðum, vinnslu, dreifingu og sölu á aflanum. Íslenski fiskurinn er þekktur á heimsmörkuðum fyrir gæði og stöðuleika. En gæðin hafa ekki komið að sjálfum sér.
Sjávarútvegur er ein elsta atvinnugrein íslendinga og höfum við í gegnum tímana öðlast einstaka fagþekkingu á veiðum, vinnslu, dreifingu og sölu á aflanum. Íslenski fiskurinn er þekktur á heimsmörkuðum fyrir gæði og stöðuleika. En gæðin hafa ekki komið að sjálfum sér.
Íslenskur sjávarútvegur hefur náð góðum árangri í að efla eftirlit og vernda fiskstofna, sem gerir veiðarnar sjálfbærar, þ.e.a.s. við nýtum auðlindir þannig að þær standi komandi kynslóðum til boða í ekki minni umfangi en núverandi kynslóðum. Umhverfisvitund markaðarins er mun meira en hér áður fyrr og eru sjávarafurðir í vaxandi mæli umhverfisvottaðar til staðfestingar á að fiskurinn sé veiddur og unninn samkvæmt viðurkenndum stöðlum í umhverfisvernd. Marine Stewardship Council (MSC) vottun er umsvifamest af samtökum á þessu sviði og er MSC vottaður fiskur krafa á helstu mörkuðum Íslendinga.
Íslendingar hafa náð að búa til kerfi þar sem vísindaleg gögn eru notuð til að stjórna því hvað má veiða hverju sinni. Kerfið, sem komið var á eftir að fiskstofnar voru við það að hrynja, hefur náð að stýra veiðum þannig að stofnarnir hafa náð sér og við verið skynsöm í að ná því úr hafinu sem að við getum án þess að ógna lífríkinu. Styrkur okkar á mörkuðum er þessi stöðuleiki sem að kerfið bíður uppá og afhendingaöryggi til okkar viðskiptaþjóða. Rekjanleiki er mikilvægur við veiðar og vinnslu og gerir hann útgerðunum kleift að tryggja að farið sé eftir reglum við veiðar og beintengist rekjanleikinn við gæðaeftirlit fyrirtækjanna. Rekjanleiki er nauðsynlegur til að tryggja öryggi afurða og rekja feril matvælanna að fullu.
Framþróun og tæknivæðing
Búnaður og vinnsluaðferðir um borð í skipum er sífellt að þróast með það að markmiði að bæta meðhöndlun. Í greininni eru sérfræðingar sem hafa helgað sér rannsóknum við þróun á vinnslu og meðhöndlun sjávarafurða. Fyrirtækin hafa tekið þátt í mörgum rannsóknartengdum verkefnum og þar með tekið þátt í því að byggja upp þau fræðilegu gögn sem til eru á þessu sviði. Loftlagsmál eru sjávarútveginum hugleikinn og hefur íslenski flotinn náð að lágmarka olíunotkun með því að stýra skipum og veiðum eftir gögnum sem segja til um hvar hverja tegund er að finna á hverjum tíma. Markmiðið er að ekki sé farið í fleiri sjóferðir en þarf ásamt því að stuðla að heilbrigðari endurnýjun flotans.
Við íslendingar megum vera stolt af því hvert sjávarútvegurinn er kominn.
Mikil framþróun hefur orðið í landvinnslum og aukin tæknivæðing verið lykilinn í að auka gæði og afköst. Þar hefur náið samstarf sjávarútvegs- og tæknifyrirtækja skipt sköpum. Öll hönnun og þróun tækja er gerð með það í huga að auka hagkvæmni, gæði og meðhöndlun á fisknum. Gæðaeftirlit á öllu framleiðsluferlinu hefur aukist gríðarlega og alþjóðlegar gæðavottanir orðin krafa til að komast á eftirsótta markaði. Alþjóðlegar vottanir snúast um stjórnun, matvælaöryggi, matvælavernd og lögmæti framleiðslustýrningar. Fyrirtæki þurfa að geta sannað góða framleiðsluhætti og skráningar spila þar lykilhlutverk.
Mikilvægt að staðna ekki
Við íslendingar megum vera stolt af því hvert sjávarútvegurinn er kominn. Við höfum farið úr því að vera fjárhagslega íþyngjandi fyrir þjóðarbúið yfir í það að vera vel rekin og arðbær grein sem skilar sér í stöðugum tekjum fyrir ríkissjóð. Við höfum náð í sameinginu að vera ein af sterkustu sjávarútvegsþjóðum heims þar sem að hugvitið og tækniframfarir eru okkar aðalsmerki. Markmiðið er alltaf að nýta hvert einasta gram úr aflanum og gera úr því sem verðmætustu afurðirnar. En það má ekki gleyma því að við erum í alþjóðasamkeppni og því mikilvægt að við höldum áfram að sækja fram.
Af atvinnugreininni hafa skapast fjölmörg tækifæri og fjöldi afleiddra starfa mikill. Frumkvöðlar hafa komið fram með nýsköpun sem vekur heimsathygli. Svokallaðar „aukaafurðir“ þ.e.a.s annað en flakið, sem áður var hent er nú orðnar eftirsóttar vörur. Ensím, kollagen og sáraplástrar úr fiskroði eru meðal þess sem unnið er úr þessum hliðarafurðum. Því er spáð að verðmætin af þeim munu vera meiri en í flakinu sjálfu. Þarna eru tækifæri til enn meiri verðmætasköpunar sem byggja á mikilli markaðssetningu. Það er mikilvægt að staðna ekki, halda áfram á sömu braut og styrkja íslenskan sjávarútveg enn frekar.
Greinin birtist í Áramótum, tímariti Viðskiptablaðsins og Frjálsrar verslunar, sem kom út fimmtudaginn 29. desember 2022.