Ef ríkissjóður væri fyrirtæki sem skráð er í Kauphöllina hefði fyrirsögnin um afkomuspá næsta árs verið: Góður kraftur í ríkisrekstrinum!

Þessi hugrenningatengsl eru ekki fjarstæðukennd í ljósi kynningar ríkisstjórnarinnar á fjárlögum næsta árs.

Fjárlögin eru sögð aðhaldssöm þrátt fyrir að fetað sé áfram á braut ríkisútgjalda. Met verður sett í ríkisútgjöldum á næsta ári og verður það að teljast dágott afrek í ljósi þess hversu mikið þau hafa þegar aukist. Frá því að ríkisstjórn Katrínar Jakobs-dóttur forsætisráðherra tók við völdum veturinn 2017 hafa útgjöld ríkissjóðs aukist um 433 milljarða króna. Ríkissjóður hefur verið rekinn viðstöðulaust með halla frá árinu 2019 og ekki er útlit fyrir að það breytist á næstu árum.

Það sem skiptir máli í þessu samhengi er sú staðreynd að ekki hefur verið undið ofan af þeirri miklu útgjaldaaukningu sem gripið var til til að verjast efnahagslegum áhrifum heimsfaraldursins á sínum tíma. Frá árinu 2018 hafa útgjöld ríkissjóðs þannig aukist um tæplega 10% að meðaltali á hverju ári.

Framsetning sjálfs frumvarpsins fær lesendur til að gruna að það sé verið að slá ryki í augu þeirra. Þar er gert mikið úr þeirri staðreynd að skuldahlutfall ríkissjóðs sé umtalsvert betra en gert var ráð fyrir í fjármálaáætlun frá árinu 2020 – fjármálaáætlun sem sett var fram þegar fullkomin óvissa ríkti um hver framþróun heimsfaraldursins yrði.

Til að gæta allrar sanngirni er vissulega rétt að hallareksturinn dregst saman á milli ára samkvæmt frumvarpinu og skuldahlutfall ríkissjóðs er hóflegt í samanburði við önnur vestræn ríki. En það breytir ekki þeirri staðreynd að þessi þróun er drifin af auknum skatttekjum vegna mikils uppgangs í efnahagslífinu. En blikur eru á lofti og vísbendingar um að hagvaxtarvélin sé farin að hiksta. Fjárfestingarumsvif í byggingariðnaði og orkufrekum iðnaði fara minnkandi og það sama gildir um vöxt innlendrar eftir-spurnar. Raungengið er langt yfir sögulegu meðaltali og það hefur mikil áhrif á samkeppnishæfni útflutningsgeiranna. Með öðrum orðum: úr fjarska lítur farartækið ágætlega út en ýmsar áleitnar spurningar vakna þegar kíkt er undir húddið.

Í fjárlagafrumvarpinu segir eftirfarandi: „Sama til hvaða greininga er horft, þá er niðurstaðan alltaf sú sama. Ríkissjóður hefur dregið úr vexti eftirspurnar og þar með verðbólgu frá árinu 2022. Þetta fjárlagafrumvarp gerir ráð fyrir að svo verði enn á næsta ári.“ Í þessu felst töluverð sjálfsblekking. Væri þetta rétt væru verðbólguvæntingar til lengri og skemmri tíma ekki jafn háar og raun ber vitni. Þær væntingar endurspegla meðal annars mat fjárfesta á áhrifum ríkisumsvifa á verðbólguþróun næstu ára. Væru fjárlög næsta árs í raun og veru aðhaldssöm sæust þess merki þess á skuldabréfamarkaðnum.

Einnig verður að hafa í huga að fjárlagafrumvarpið tekur ávallt miklum breytingum í meðförum þingsins. Leiða má líkur að því að útgjöldin aukist verulega áður en frum-varpið verður samþykkt. Að vísu hefur stjórnarandstaðan stigið fram og gagnrýnt ríkisstjórnina fyrir að sýna ekki nægilega mikið aðhald. Vonandi er það til marks um að hún beiti sér ekki fyrir frekari útgjaldaaukningu fjárlaga á þinginu í haust. En litlar -líkur eru á því að það verði raunin.