Litakóðar hafa birst víða undanfarið. Á veirutímum var smithættu komið fyrir í slíku kerfi. Sami litur virtist reyndar gilda fyrir allt landið þó engin veira hefði greinst í sumum landshlutum. Rauð viðvörun! Appelsínugul viðvörun! Hverju átti þetta að skila? Leiðbeiningum? Upplýsingum um hættuástand? Nei, vekja ákveðin hughrif. Á meðan einhver litur var á kortinu var veiran skæða á sveimi einhvers staðar.

Síðustu vikur hafa viðvaranir í ýmsum litum vofað yfir hátíðarhöldum. Nú reyndar ekki vegna veiru, sem betur fer, heldur veðurtengdar. Appelsínugul viðvörun á gamlársdag varð til þess að fólk þorði ekki úr húsi. Fólk fór ekki út til að kaupa flugelda af björgunarsveitunum og gamalt fólk sat heima yfir áramót í stað þess að fagna með fjölskyldum sínum. Það varð þó aldrei af þessu veðri hér á höfuðborgarsvæðinu og fólk fagnaði nýju ári í frosti og stillu.

Kannski markmiðið með litakóðunum sé ekki að veita upplýsingar. Þeir sem vilja upplýsingar lesa vitaskuld veðurspána. Kannski markmiðið sé miklu frekar að vekja upp ákveðin hughrif. Gult er verra en hvítt, appelsínugult er verra en gult og ef allt er orðið eldrautt þá fer maður væntanlega ekki út úr húsi.

Við erum að láta hræða okkur með ýmsum hætti með óskýrum en björtum litum og dramatískum ástandslýsingum. Kannski hafa veirutímar gert okkur móttækileg fyrir litakóðum. Þeir gerðu mig reyndar ónæma fyrir þeim. Ég les ennþá veðurfréttir og lít út um gluggann áður en ég vel fararskjóta.

Það á ekki að komast í vana að skerða frelsi fólks bara til öryggis, heldur þarf að byggja slíkar aðgerðir á góðum og aðgengilegum upplýsingum og ríkum hagsmunum. Kannski ætti áramótaheit stjórnvalda að vera að reyna stýra okkur minna til hlýðni með litakóðum?

Pistillinn birtist í Viðskiptablaðinu, sem kom út fimmtudaginn 22. desember 2022.