Í Viðskiptablaðinu á föstudag fjallaði Óðinn um stýrivaxtahækkun Seðlabankans og dæmi sem var tekið um hvaða áhrif lækkun ríkisútgjalda hefði á verðbólgu, viðskiptahalla og fleiri hagstærðir.
Pistill nefndist Stýrivaxtahækkun, leikskólabókardæmið, offita og ráðherrabílar.
Hér er stutt brot úr pistlinu en áskrifendur geta lesið hann hér í fullri lengd.
Leikskólabókardæmi
Seðlabankinn hefur augljóslega áttað sig á því að ríkisstjórnin ræður ekki við verkefni sitt að minnka verðbólgu og lagði fram sérstaka glæru á fundinum. Eins konar leikskólabókardæmi um hvernig lækkun ríkisútgjalda og hækkun skatta geti minnkað verðbólgu.
Dæmið gerir ráð fyrir að auknu aðhaldi sem nemur 60 milljörðum árin 2023 og 2024. Annars vegar með 30 milljarða minni útgjöldum og hins vegar 30 milljarða hærri sköttum á heimilin – eða lægri millifærslum til þeirra.
Útgjaldaaukningin á fjárlögum þessa árs nemur um 180 milljörðum og því er þetta aðeins sjötti hluti útgjaldaaukningar. Niðurskurður um 30 milljarða er auðvitað klínk á tveimur árum!
***
Lítil fyrirhöfn en mikil áhrif
En þrátt fyrir að aðhaldið yrði aukið svona lítið, nánast ekkert, þá myndu stýrivextirnir geta verið 0,4% lægri en ella. Verðbólga myndi verða 0,1% minni en ella. Og viðskiptajöfnuðurinn skána um 0,2% í ár.
Gleymum því ekki að gengi krónunnar er fárveikt. Það er 5,7% lægra nú en fyrir ári síðan. Minni ríkisgjöld myndu því hafa veruleg áhrif á gengi krónunnar.
***
Hárbeitt gagnrýni
Óðinn hefur gagnrýnt Seðlabankann harðlega undanfarna mánuði vegna þess hversu mjúkum höndum hann hefur farið um ríkisstjórnina og ríkisfjármálin.
Þó bankinn geti og eigi ekki að geta sagt ríkisstjórninni fyrir þá getur bankinn að sjálfsögðu gagnrýnt hana.
Hann má þó eiga það að þarna kemur hann með hárbeitta gagnrýni.
Undir rós.
Pistill Óðins birtist í Viðskiptablaðinu sem kom út föstudaginn 26. maí. Áskrifendur geta lesið hann í fullri lengd hér.