Um tvö ár eru liðin frá upphafi heimsfaraldurs. Ísland stóð frammi fyrir djúpum efnahagssamdrætti og fordæmalausu atvinnuleysi. Að lokum reyndist samdrátturinn minni en óttast var í upphafi og geta heimila til að halda uppi neyslu var meiri en talið var. Þessi þróun er þó til marks um hversu ójafnt áhrif heimsfaraldurs dreifðust á heimili og atvinnugreinar. Reglulega heyrist að fjárhagsstaða heimila hafi aldrei verið betri en hið rétta er að fjárhagsstaða margra heimila hefur aldrei verið betri á meðan önnur heimili tóku á sig atvinnumissi með verulegu og langvarandi tekjufalli, fyrst og fremst í ferðaþjónustu og tengdum greinum.

Þrátt fyrir að efnahagsbati hafi fest sig í sessi stendur hagkerfið frammi fyrir áskorunum. Sú stærsta er að tryggja að húsnæðismarkaður ýti ekki undir frekari óstöðugleika og verðbólgu í hagkerfinu.

Lífskjarasamningur juku ekki launahlutfall í samdrætti

Vorið 2019 voru blikur á lofti í efnahagsmálum. Fyrirséð var að gjaldþrot WOWair myndi hafa umtalsverð áhrif á íslenskum vinnumarkaði. Lífskjarasamningurinn varð til í þessu efnahagslega umhverfi. Auk launahækkana hafði verkalýðshreyfingin einkum kallað eftir umbótum á húsnæðismarkaði, í skattamálum og tilfærslukerfum. Ástæðan var sú að þróun þessara kerfa hafði unnið gegn markmiðum samninga, t.d. aukin skattbyrði af völdum raunskattskriðs og skerðingum tilfærslukerfa.

Niðurstaða samninganna var að hækkunum var beint til hinna tekjulægstu með sérstökum taxtahækkunum og krónutöluhækkanir voru fastar umfram taxtaumhverfið. Yfirlýsing stjórnvalda fól í sér að brugðist yrði við gagnrýni verkalýðshreyfingar og ráðist yrði í umbætur í húsnæðismálum, skattamálum og fjölda annarra málaflokka. Kostnaðarmat samningsaðila var um 4% á ári fyrir samninga ASÍ og SA á almenna markaðnum og í kjölfar samningsins skapaðist svigrúm til lækkunar vaxta.1 Þróun ráðstöfunartekna sýnir að markmið samninga hafa að mörgu leyti gengið eftir. Ráðstöfunartekjur jukust meira í neðri hluta tekjudreifingar vegna launaþróunar og skattkerfisbreytinga en áhrif vaxta urðu þó einnig til að auka ráðstöfunartekjur umtalsvert í efri hluta tekjudreifingar.

Lífskjarasamningurinn sætti mikilli gagnrýni eftir að heimsfaraldur braust út. Atvinnurekendur settu fram margar hugmyndir sem gengu gegn samningnum og hefðu orðið til þess að rýra kjör og réttindi launafólks. Afstaða verkalýðsfélaga var skýr, kostnaður hluta atvinnulífs vegna tekjufalls og skuldavanda yrði ekki leystur með lækkun launa í öllu hagkerfinu. Sú staðreynd að kjarasamningar héldu í gegnum heimsfaraldur og laun hækkuðu varð til þess að viðhalda umsvifum og eftirspurn í hagkerfinu og draga úr samdrætti. Þensluáhrif á vinnumarkaði hafa einnig sést og birtast í launaskriði, þar sem fyrirtæki hafa sjálf hækkað laun umfram umsamdar hækkanir.

Nú heyrast þessar áherslur að nýju þar sem gjarnan er staðhæft að hvergi finnist hærra launahlutfall en á Íslandi og að laun hérlendis hafi hækkað kerfisbundið umfram framleiðnivöxt. Hvorugt er hins vegar rétt. Á Íslandi er hlutfall launa af verðmætasköpun í einkageiranum sambærilegt við nágrannalönd og lægra en í sex OECD ríkjum. Hlutfallið hefur hækkað frá fjármálahruni en gjarnan gleymist að raunlaun hrundu í fjármálahruninu. Að horfa á þróun eftir fjármálahrun getur verið afvegaleiðandi. Alls hrundi launahlutfallið um 18 prósentustig á árunum 2007-2009, þróun sem ekki varð í öðrum löndum. Ennfremur hafa laun í einkageiranum þróast í takt við framleiðnivöxt frá aldamótum.

Húsnæðismarkaður rót óstöðugleika í hagkerfinu

Húsnæðismarkaður hefur um langt skeið verið rót óstöðugleika í íslensku hagkerfi. Hraður vöxtur ferðaþjónustu hafði gríðarleg þensluáhrif á leigumarkaði síðasta áratug. Þannig hækkaði meðalleiguverð töluvert umfram launaþróun á tímabilinu 2011-2019. Íslenskur leigumarkaður er óskipulagður, stórt hlutfall leigusala er einstaklingar, réttindi leigjenda eru veik, skammtímasamningar eru ríkjandi og engin leigubremsa er til staðar. Áhrifin eru ótrygg leiga og mikil áhrif markaðssveiflna á leiguverð. Hátt hlutfall leigjenda í neðsta tekjufimmtungi ber því íþyngjandi húsnæðiskostnað, eða um 43% borið saman við 34% að meðaltali í OECD.

Núverandi hækkun húsnæðisverðs skýrist hins vegar ekki af fjölgun ferðamanna, fremur hraðri lækkun vaxta í umhverfi lítils framboðs. Hagfellt vaxtaumhverfi varð til þess að fjölga fyrstu kaupendum en einnig að gera öðrum kleift að flytjast í stærra húsnæði með aukinni skuldsetningu. Áhrif vaxta á húsnæðisverð voru ekki óvænt og ekki skýrt hvers vegna Seðlabankinn kaus ekki að beita þjóðhagsvarúðartækjum fyrr og af meiri kraft til að bregðast við fyrirséðri verðbólgu. Fyrir vikið mun vaxtahækkun þurfa að verða brattari en ella. Áhrifin eru verst fyrir vænta kaupendur sem hafa misst af lestinni. Meðalíbúð á höfuðborgarsvæði kostaði um tólffaldar ráðstöfunartekjur 25-29 ára árið 2020 en hlutfallið var um sexfalt í byrjun aldar, síðan þá hefur staðan einungis versnað. Vaxtahækkanir munu hafa mest á áhrif á þann hóp fyrstu kaupenda sem þurft hefur að spenna bogann og getur ekki treyst á tilfærslukerfi á borð við vaxtabætur þar sem skerðingarmörk eiginfjár hafa ekki þróast með eignaverði.

Aðkoma stjórnvalda að kjarasamningum áfram mikilvæg

Húsaskjól er ekki valkvæð neysla. Húsnæðiskostnaður hefur því veruleg áhrif á endanlegar ráðstöfunartekjur einstaklinga. Húsnæðiskostnaður vegur þyngst hjá tekjulágum, meðal einstaklinga og hjá leigjendum. Markaðsbrestir á húsnæðismarkaði hafa þannig bein áhrif á kjör einstaklinga og hafa unnið gegn markmiðum kjarasamninga. Af þeim sökum verður aðkoma stjórnvalda að kjarasamningum áfram mikilvæg. Þar skortir enn efndir á umbótum á húsnæðismarkaði sem boðaðar voru í yfirlýsingu stjórnvalda með lífskjarasamningum. Húsnæðistefna sem tryggir stöðugleika á húsnæðismarkaði verður hins vegar stærsta kjaramálið.

graf
graf

Höfundur er sviðsstjóri stefnumótunar og greininga hjá Alþýðusambandi Íslands.

Greinin var skrifuð um miðjan febrúar og birtist í tímariti Frjálsrar verslunar sem kom út 3. mars. Hægt er að gerast áskrifandi hér eða kaupa blaðið hér .