Týr tók eftir því að þingmaður Sjálfstæðisflokksins, Vilhjálmur Árnason, tiplaði út á sprengisvæði pólitísks rétttrúnaðar þegar hann fjallaði um forgangsröðun í ríkisrekstri úr ræðustól Alþingis á þriðjudag og nefndi menningu og listir í sömu andrá. Það hefur farið illa fyrir mörgum þingmanninum, sem vogar sér að setja spurningarmerki við fjárframlög skattgreiðenda í þennan málaflokk á meðan lögreglan og heilbrigðisstarfsfólk búa við fjárskort.

„Menning og listir eru nauðsynleg en við höfum ekkert við það að gera meðan við tryggjum ekki öryggi okkar og heilsu,“ sagði Vilhjálmur. Sem er rétt, en ekki alveg nákvæmt. Menning og listir munu alltaf vera til staðar, þrátt fyrir að við byggjum við sára fátækt, en hið opinbera hefur ekkert með það að gera að millifæra peninga fólksins í þennan málaflokk. Týr tekur því undir með Vilhjálmi.

Þeir sem eru áskrifendur að þessum peningum láta eðlilega í sér heyra þegar talað er um að skerða framlög til þeirra. Það gerðist þegar Elliði Vigfússon, bæjarstjóri í Vestmannaeyjum, þorði að stíga inn á vígvöllinn og var tilefni ræðu Vilhjálms. En þingmenn mega ekki vera hræddir við að fylgja eftir sannfæringu sinni. Það gerði Elliði og Vilhjálmur fylgdi eftir. Það gerði líka Ásbjörn Óttarsson á sínum tíma þegar hann ræddi listamannalaun.

„Síðast en ekki síst eitt sem ég gleymdi að koma inn á. Listamannalaun eru hækkuð um 35 milljónir. Af hverju geta þessir listamenn ekki farið að vinna [forseti hringir] og komið sér bara í eðlilega vinnu eins og allt venjulegt fólk?“ sagði Ásbjörn og fékk bágt fyrir eftir að hagsmunahóparnir höfðu snúið þessu á hvolf. Þeir sem gagnrýna íhlutun ríkisvaldsins í lista- og menningariðnaðinum eru nefnilega oftast málaðir sem andstæðingar menningar og lista.

Ríkið á ekki að vera með listamenn á launaskrá skattgreiðenda né standa straum af listsköpun í stórum stíl. Þeir sem halda því fram eru ekki á móti fólki sem vinnur við listsköpun eða list almennt. Ekki frekar en að þeir sem eru á móti ríkisreknum kvikmyndahúsum séu á móti kvikmyndum. Eða þeir sem eru á móti RÚV séu á móti útvarpi.

Týr upplifir þessa umræðu ekki heldur sem átök milli landsbyggðar og höfuðborgarbúa. Þetta er umræða um forgangsröðun í ríkisfjármálum. Og þar koma mörg verkefni á undan listamannalaunum eða umfangsmiklum fjárframlögum til menningu og listar. Það er bara svo einfalt.