Leikskólamál Reykjavíkurborgar komust í kastljós fjölmiðla í síðustu viku þegar tugir foreldra mættu í ráðhúsið til að mótmæla algjöru úrræðaleysi borgaryfirvalda í málaflokknum.Úrræðaleysi er raunar fremur milt orðalag í þessu sambandi, nær væri að tala um lygar því eins og margir muna þá lofaði borgarstjóri því fyrir kosningarnar í maí að 12 mánaða börn og eldri fengju leikskólapláss í haust. Þetta voru innantóm loforð, sem þýðir að foreldrar þessara barna þurfa enn að bíða með öllum þeim röskunum og tilkostnaði sem því fylgir, seinkun á námi, tekjumissi og í einhverjum tilvikum atvinnumissi. Staðan í dag er sú að um 700 börn 12 mánaða og eldri bíða eftir leikskólaplássi í Reykjavík. Þó áætlun borgaryfirvalda um að úthluta 200 plássum á næstu dögum þá munu foreldrar um 500 barna sitja eftir og bíða.
„Það er auðvitað vitað að við settum þessi mál í algjöran forgang fyrir fjórum árum síðan og sögðumst þá ætla að brúa bilið á innan við sex árum,” sagði Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri og oddviti Samfylkingarinnar, í viðtali við Ríkissjónvarpið í síðustu viku. „Þessar áætlanir hafa í meginatriðum gengið vel. Ákveðin verkefni hafa tafist núna og það hefur verið meiri barnafjölgun á þessu vori heldur en við bjuggumst við þannig að skóla- og frístandasvið flaggaði á það í upphafi sumars að þau fyrirheit eða spár sem settar voru fram síðasta vetur myndu hugsanlega ekki ganga eftir að öllu leyti, þannig að við fáum upplýsingar um það inn í borgarráð eftir viku nákvæmlega hvar staðan er varðandi innritun á einstaka leikskóla.”
Fyrst bera að nefna að þessi ummæli stangast á við það sem Skúli Helgason, flokksfélagi borgarstjóra, sagði í ávarpi í skýrslu stýrihóps um uppbyggingu leikskóla sem kom út haustið 2018. Þar talaði Skúli um að bilið yrði brúað á fimm árum en ekki sex eins og borgarstjóri sagði í viðtalinu í síðustu viku.
Fullyrðingar um spár hafi ekki gengið eftir eru yfirklór. Viðskiptablaðið greindi frá því í byrjun maí að markmið borgaryfirvalda í leikskólamálum væru ekki í takt við spár.
Í frétt blaðsins þann 11. maí sagði: „Jafnvel þótt markmið Reykjavíkurborgar um fjölgun leikskólarýma um 1.680 á árunum 2022 til 2025 náist mun vanta 1.775 leikskólapláss í árslok 2026 sé miðað við spá Byggðastofnunar um fjölda barna á aldrinum 1-5 ára í höfuðborginni, sem kom út snemma í mars á þessu ári. Spáin gerir ráð fyrir 10.160 börnum á leikskólaaldri í árslok 2026, sem samsvarar rúmlega 37% fjölgun frá árinu 2021, en miðað við áætlanir Reykjavíkurborgar verða einungis 8.385 leikskólapláss á þeim tímapunkti.“
Þarna er greint frá spá sem kunngjörð var í mars á þessu ári og samkvæmt henni mun sumsé vanta 1.775 leikskólapláss í árslok 2026. Miðað við orð borgarstjóra þá gerðu borgaryfirvöld sér ekki grein fyrir stöðunni fyrr en í byrjun sumars. Svo heppilega vill til að þá voru borgarstjórnarkosningar yfirstaðnar og Degi B. tókst enn og aftur að halda völdum með því að finna nýtt varadekk fyrir meirihluta sem féll. Árið 2018 var það Viðreisn sem hélt lífi í meirihlutanum en í maí síðastliðnum gekk Framsóknarflokkurinn til liðs við meirihlutann sem hafði fallið með glæsibrag.
Orð borgarstjóra verða enn furðulegri þegar haft er í huga að í mars síðastliðnum uppfærði stýrihópurinn spár sínar eins og greint var frá í áðurnefndri frétt Viðskiptablaðsins, sem birtist 11. maí. Hópurinn miðaði aftur á móti við mannfjöldaspá Hagstofunnar um landið í heild sinni og gerði ráð fyrir að hlutfall Reykjavíkur í heildarmannfjölda héldist stöðugt. Þetta gerði stýrihópurinn þrátt fyrir að í umsögn fjármála- og áhættustýringarsviðs um tillögurnar væri bent á annmarka þess að færa spá Hagstofunnar fyrir landið í heild yfir á Reykjavík.
Fyrir borgarstjórnarkosningarnar var talað um að 12 mánaða börn og eldri fengju leikskólapláss í vor. Í Ríkissjónvarpinu um síðustu helgi var Sigurður Sigurjónsson, formaður Félags stjórnenda leikskóla, spurður út í málið. Svarið var skýrt: „Það var engin innistæða fyrir þeim loforðum. Við vissum það allan tíman að þessi börn sem eru kominn inn undir 12 mánaða aldri kæmust aldrei inn í leikskólann á þessu tímabili.“
Ekki er hægt að draga aðra ályktun af öllu þessu en að logið hafi verið að kjósendum í Reykjavík fyrir borgarstjórnarkosningarnar 14. maí síðastliðinn. Ekki síst þegar haft er í huga að af þeim 720 leikskólarýmum sem gert var ráð fyrir til viðbótar á árinu 2022 voru 300, eða 42%, annað hvort enn í undirbúningi eða á stigi hönnunar í byrjun mars síðastliðnum.